132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Samningur um menningarmál.

428. mál
[12:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Það er einmitt vegna þess hvað samningurinn við Austfirðinga er góður og hefur skilað góðu sem við þingmenn erum að þrýsta á að áfram verði haldið í þessum efnum af hæstv. ríkisstjórn og til þess þarf auðvitað hæstv. menntamálaráðherra að fá pening af fjárlögum. Það er m.a. það sem við erum að gera með því að ýta á þetta.

Ég vil líka minna á það rétt einu sinni að auðvitað er mestum fjármunum til menningarmála frá hinu opinbera varið hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað skýlaus réttur okkar sem úti á landi búum að fá stærri hluta af þessari köku.

Ég held að málið sé í ágætum farvegi, sagði hæstv. ráðherra fyrir ári síðan. Ég tel að þetta hafi tekið of langan tíma og hvet þess vegna hæstv. ráðherra til að ræða við fulltrúa Eyþings um þetta sem allra fyrst.

Jafnframt vil ég segja það, virðulegi forseti, ég hef vitnað í hvernig þetta gerðist í aðdraganda kosninga 2003, í tíð fyrrv. menntamálaráðherra, fulltrúar ráðuneytis fóru norður, sem var 14. apríl 2003. Og heldurðu svo ekki, virðulegi forseti, að við megum þá kannski vænta þess að skrifað verði undir samning við Eyþing eigi síðar en 14. apríl 2007? Og má ég aðeins minna á að dagsetningin 5. maí 2007 er merkilegur dagur vegna þess að þá fara fram alþingiskosningar þannig að ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra í lokin hvort það væri ekki ástæða til að við færum að ákveða í hvaða húsi verður skrifað undir og hvort ætti ekki að fara að tryggja sig og panta húsnæði undir undirskrift samnings 14. apríl árið 2007.