132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alls kostar ánægð með svör hæstv. ráðherra. Sjálf get ég lesið lögin um réttindi sjúklinga og hef reyndar gert það. Þetta er hins vegar pólitískt álitamál og hæstv. heilbrigðisráðherra verður að taka pólitíska ábyrgð í þessu máli.

Hann hefur sjálfur gengist fyrir því að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um græðara, að undangenginni mikilli vinnu við að semja skýrslu um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi. Við þurfum að halda áfram þeirri vinnu og klára hana. Það verður að tryggja að sjúklingar, sem samkvæmt lögum eiga rétt á fullkomnustu þjónustu, öllum upplýsingum um meðferðir, eiga rétt á að hafna meðferð, fái líka réttinn til að velja sér meðferð, sérstaklega þegar um er að ræða erfiða sjúkdóma sem læknavísindin viðurkenna að þau geti ekki tekist á við með lyfjum.

Ég spyr hæstv. ráðherra og hann verður að svara því: Finnst honum réttlætanlegt að sjúklingur geti fengið hundruð þúsunda króna til að niðurgreiða lyf á hverju einasta ári, kannski árum saman, á sama tíma og sami sjúklingur, sem í samráði við lækna hafnar lyfjunum af því að þau virka ekki, fær ekki eina einustu krónu til að greiða niður alla hina meðferðina sem fær viðkomandi sjúkling til að geta horft björtum augum á þá daga sem viðkomandi berst við sjúkdóminn? Hæstv. heilbrigðisráðherra verður að svara þessari spurningu og ég treysti því að hann geri það á persónulegan og pólitískan hátt í síðara svari sínu.