132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Réttur sjúklinga við val á meðferð.

430. mál
[13:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á og þeim sem hafa talað hér að spyrja efnislega um það sem þeir vilja fá svör við. Ekki var spurt um afstöðu til óhefðbundinna lækninga og niðurgreiðslu á þeim. En ég get svarað því að aldrei fyrr hefur það verið svo að óhefðbundnum lækningum hafi verið skipaður sess í lögum. Við erum nýbúin að því á Alþingi og það hljóta að vera vísbendingar í því að við lítum á óhefðbundnar lækningar sem hluta af heilbrigðiskerfinu. Hins vegar er ekki þar með sagt að við getum sjálfkrafa tekið það allt inn í greiðsluþátttöku almannatrygginga. Það sem ræður því er einfaldlega hvort við m.a. forgangsröðun og hvort við höfum fjármuni til að taka upp niðurgreiðslur. Til dæmis er barist mjög fyrir greiðsluþátttöku almannatrygginga í viðtölum klínískra sálfræðinga. Ég hygg að það mál sé efst á baugi núna. Auðvitað erum við alltaf með þetta til skoðunar en hins vegar hefur aldrei fyrr verið tekið á málefnum óhefðbundinna lækninga með sama hætti og gert hefur verið undanfarið. Við höfum skapað þeim sess í samfélaginu. Það er fyrsta skrefið. Síðan verður greiðsluþátttaka almannatrygginga að byggjast á því hver forgangsröðunin er í þessum efnum. Það er eilíft viðfangsefni og markast af efninu sjálfu og eins af þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar.