132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Málefni listmeðferðarfræðinga.

440. mál
[13:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hinn 9. febrúar á síðasta ári bar ég upp fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi listmeðferðarfræðinga og stöðu þeirra í heilbrigðiskerfinu og í framhaldi af því hvað liði vinnu við endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir með tilliti til stöðu listmeðferðarfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Hæstv. ráðherra svaraði mér á greinargóðan hátt. Hann sagði að listmeðferðarfræðingar væru ekki skilgreindir sem heilbrigðisstétt og hvað varðaði endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir þá væri unnið að endurskoðun þeirra. Það mál átti fyrir ári síðan að vera komið allvel á veg og niðurstöðu að vænta fljótlega.

Nú er mér kunnugt um það, hæstv. forseti, að þessi endurskoðun hefur staðið yfir árum saman. Ég hygg að liðin séu 5–7 ár eða jafnvel meira síðan tilkynnt var um að þessi lög væru til endurskoðunar í ráðuneytinu. Það er auðvitað nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari fyrir um það hvernig standi á drætti þessarar vinnu. Það er líka alkunna að listmeðferðarfræðingar hafa leitað til umboðsmanns Alþingis til að reyna að fá úrlausn sinna mála í þessum efnum og hafa í gegnum tíðina ítrekað sent heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytinu bréf um þessi mál. Mér er kunnugt um að eftir að þessar fyrirspurnir voru lagðar fyrir hæstv. ráðherra hafi listmeðferðarfræðingar skrifað ráðherra bréf og spurt um ýmsa hluti, eins og t.d. hvaða skilyrði starfsstétt þyrfti að uppfylla til að ráðuneytið skilgreindi hana sem heilbrigðisstétt, hvaða menntunarkröfur ráðuneytið gerði til heilbrigðisstétta sem hlotið hefðu lögverndun eða viðurkenningu á starfsheitinu, hvaða ramma eða skilyrði ráðuneytið setji um heilbrigðisstarfsmenn svo öryggi skjólstæðinga þeirra sé tryggt, hvað átt sé við þegar talað er um sjálfstæði starfa í tengslum við löggildingu, hvert grundvallarmarkmið og tilgangur lögverndunar starfsstétta sé að mati ráðherrans eða ráðuneytisins og hvort starfi nefndarinnar um endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir hafi verið sett einhver tímamörk.

Allar þessar spurningar eru settar fram í framhaldi af svari hæstv. ráðherra til mín fyrir ári síðan þar sem hann lýsti því yfir að stefna ráðuneytisins í framtíðinni sé sú að aðeins verði löggiltar þær stéttir sem að mestu leyti starfi á sviði heilbrigðisþjónustu en engu að síður sé hann með það til skoðunar á hvern hátt sé mögulegt að viðurkenna nám og heiti starfsstéttar sem starfar innan heilbrigðisþjónustunnar án þess að um löggildingu verði að ræða.

Í ljósi alls þessa hef ég beint fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hvenær megi vænta þess að endurskoðun laganna um heilbrigðisstéttirnar ljúki og hvers sé að vænta varðandi löggildingu listmeðferðarfræðinga, viðurkenningu náms þeirra eða leyfi til að nota heiti starfsstéttarinnar.