132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Málefni listmeðferðarfræðinga.

440. mál
[13:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að hér séu nokkur tíðindi á ferðinni þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gefið yfirlýsingu á Alþingi Íslendinga um að lögin um heilbrigðisstéttir séu ekki í endurskoðun, að þeirri endurskoðun hafi verið vikið til hliðar vegna anna í ráðuneytinu við að endurskoða önnur lög. Ég tel að þetta sé nokkuð alvarleg yfirlýsing og tel að hún sé ekki til þess fallin að leysa vandamál sem eru til staðar og ekki bara innan heilbrigðiskerfisins því að þetta vandamál er víða til staðar. Við höfum heyrt af nýlegu samkomulagi Kennarasambands Íslands við menntamálaráðherra. Hluti af því samkomulagi er að leikskólakennarar fá nú loksins löggildingu á starfsheiti sínu en það hefur verið krafa þeirra í mörg ár. Táknmálstúlkar hafa unnið árum saman að því að fá löggildingu síns starfsheitis, sömuleiðis starfs- og námsráðgjafar. Hér er því um víðtækt vandamál að ræða sem ég held að stjórnvöld skelli skollaeyrum við eða loki augum sínum og eyrum fyrir. Ég tel það mjög alvarlegt.

Hæstv. ráðherra gefur hér yfirlýsingu um að nám listmeðferðarfræðinga sé að sínu leyti viðurkennt þó svo hann viðurkenni að aðrir séu einnig að vinna innan heilbrigðiskerfisins við listmeðferð þó svo að þeir hafi enga menntun á því sviði. Þetta er líka alvarlegt, frú forseti, og ég er ekki viss um að listmeðferðarfræðingum sem lagt hafa í dýrt og langt háskólanám með stuðningi hins opinbera, í gegnum stuðning Lánasjóðs íslenskra námsmanna, líki alls kostar þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra sem hér með er í sjálfu sér að gera nám þeirra afar lítils virði. Það er akkúrat við þetta sem þessar stéttir eru að berjast. Þetta fólk hefur menntað sig í ákveðnu fagi og er þar af leiðandi fagstétt. En stjórnvöld neita að viðurkenna að viðkomandi starf lúti faglögmálum. Ég held því að hér sé um mjög alvarlegar yfirlýsingar hæstv. ráðherra að ræða og tel að hér þurfi að skoða hlutina betur (Forseti hringir.) og fara betur ofan í saumana á þessu viðkvæma máli.