132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Málefni listmeðferðarfræðinga.

440. mál
[13:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er tvenns konar misskilningur á ferðinni, í fyrsta lagi að endurskoðun laga um heilbrigðisstéttir hafi verið hætt. Það er eingöngu verið að fara yfir annan viðamikinn lagabálk í augnablikinu og ég á ekki von á að frumvarpið um heilbrigðisstéttir komi fram á þessu þingi. Ekki er þar með sagt að hætt hafi verið við það, síður en svo.

Í öðru lagi vil ég segja að ef hv. þingmaður hefur lesið það út úr mínu máli að ég telji starf listmeðferðarfræðinga eða menntun einskis virði þá er það misskilningur líka. Ég tel, og sagði það reyndar í mínu svari, að þeir vinna mikilvægt starf inni á heilbrigðisstofnunum. En ég segi jafnframt að dregið hefur úr viðurkenningum á starfsheiti einstakra starfsstétta. En málið er auðvitað til skoðunar í ráðuneytinu áfram og það hefur engu verið hætt í þessu efni. En ég á ekki von á að það komi fram frumvarp til laga um heilbrigðisstéttir á þessu þingi.