132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Öldrunargeðdeild á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

481. mál
[13:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður og 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður hafa beint til mín fyrirspurn um hvort ég telji þörf á að koma upp öldrunargeðdeild á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ef svo er, hvort áform séu um að það verði gert.

Virðulegi forseti. Málefni aldraðra er ört vaxandi málaflokkur. Þjónustan er viðkvæm og verkefnin varða nær öll svið heilbrigðisþjónustunnar. Einn mikilvægra þátta hennar er geðheilbrigðisþjónusta sem segja má að sé að mörgu leyti frábrugðin og að sumu leyti flóknari þegar um er að ræða aldraða en yngra fólk. Þetta er ekki síst vegna þess að oft fara saman hjá öldruðum fjölþætt heilsufarsvandamál og því mikil lyfjanotkun samhliða heilabilunareinkennum og minnissjúkdómum þar sem erfitt getur verið að greina á milli orsakar og afleiðingar. Í ljósi þess er það mat mitt að aldraðir þurfi á sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu að halda. Aftur á móti er ekki einhlítt hvernig standa skuli að slíkri þjónustu og hvernig henni skuli fyrir komið.

Í desember síðastliðinn skipaði ég 15 manna faghóp undir formennsku skrifstofustjóra öldrunarmála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem ég fól að koma með ábendingar um hvernig bæta má geðheilbrigðisþjónustu við aldraða hér á landi. Hópurinn er skipaður þannig að innan hans er tryggð góð yfirsýn yfir málaflokkinn, fagþekking og reynsla. Ég ætla hópnum tiltölulega skamman tíma til að fara yfir þessi mál og vænti þess að hann skili mér greinargerð með ábendingum sínum í lok mars þar sem fram kemur hvar helst þarf að bæta þjónustuna og hvaða leiðir séu vænlegastar. Faghópurinn hefur þegar haldið tvo vinnufundi og mér er kunnugt um að sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta fyrir aldraða á stofnunum og fyrirkomulag slíkrar þjónustu er meðal þess sem hefur verið rætt sérstaklega innan hópsins.

Í framhaldi af þessari vinnu, sem ég vona að verði lokið á þeim tíma sem ég hef sett til þessara verka, mun ég taka ákvörðun um helstu áherslur og forgangsröðun verkefna sem lúta að geðheilbrigðisþjónustu við aldraða.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns.