132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[14:03]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér bara til að lýsa ánægju minni með að íslensk tæknifyrirtæki skuli geta fengið tækifæri til þess að prófa búnað sinn um borð í íslenskum rannsóknaskipum. En ég bendi jafnframt á að hér er verið að tala um búnað sem er notaður til að mæla orkueyðslu og þetta er kannski ekki rétta skipið fyrir slíkan búnað. Af hverju segi ég það? Jú, þetta skip er svo sjaldan á sjó og menn mæla nú enga orkueyðslu meðan skipið er bundið við bryggju, því miður.

Ég vil koma þessu að og benda hæstv. sjávarútvegsráðherra á það og öðrum þingmönnum einnig sem hlýða á mál mitt og öðrum ráðamönnum að sjá til þess að þetta skip verði gert meira út og það verði úti á sjó fleiri daga á ári. Svona tæki, rannsóknaskip eins og Árni Friðriksson, á í raun að vera á sjó 330 daga á ári, eins og til að mynda norsku skipin. Svona skip á bara að koma í land til að skipta um mannskap og taka vistir og olíu. Það á að nota svona skip t.d. til að mæla orkunotkun eins og gert er með þessum tækjum hér.