132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fram í dag tvær fyrirspurnir til hæstv. samgönguráðherra sem tengjast Suðurlandsvegi. Sú fyrri sem er til umræðu núna hljóðar svo:

1. Hver er aukning umferðar um veginn á milli Selfoss og Reykjavíkur síðustu tíu árin, sundurgreint eftir árum?

2. Hver er aukning umferðar frá Reykjavík til Þorlákshafnar um Þrengsli, síðustu tíu árin, sundurgreint eftir árum?

Í beinu framhaldi á eftir legg ég fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um fyrirætlanir um breikkun Suðurlandsvegar á þessari sömu leið, samanber umræður og yfirlýsingar um málið.

Það blandast engum hugur um að aukning umferðar um Suðurlandsveg hefur verið gífurleg á síðustu tíu árum, talað er um nánast tvöföldun á umferð um veginn á þessum eina áratug. Helst þetta í hendur við ævintýralega fólksfjölgun á Suðurlandsundirlendinu, á Stór-Árborgarsvæðinu, í Ölfusinu og Árborg. Fólksfjölgun var t.d. í fyrra yfir 6% í Árborg og tæp 8% á Selfossi. Það er gífurleg fólksfjölgun og langt umfram spár sem gera ráð fyrir 2–3% fólksfjölgun. Hefur þessi þróun verið ævintýraleg eins og ég sagði og jákvæð og við því þarf að sjálfsögðu að bregðast.

Vegurinn frá Rauðavatni að Selfossi er fyrir löngu sprunginn. Hann ber ekki þá umferð sem um hann fer í dag og þess vegna vil ég fá það hér í þingtíðindi hver umferðaraukningin er, en talað hefur verið um hátt í 10% aukningu að meðaltali á ári, hátt í 90% aukningu umferðar á síðustu tíu árum. Það er gífurleg umferðaraukning. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa forgangsraðað þannig um nokkurra ára bil að tvöföldun þessa vegar sé í algerum forgangi allra vegaframkvæmda sem tengjast Suðurlandsundirlendinu. Við þessu þarf að bregðast. Samkeppnishæfi svæðisins liggur undir, samkeppnishæfi Árborgar og Suðurlandsundirlendisins við önnur svæði á jöðrum Reykjavíkur eins og Suðurnesin og Vesturlandið. Að sjálfsögðu þarf að huga að því. Almennilegar og viðunandi samgöngur liggja algerlega til grundvallar því að byggðin haldi áfram að aukast, stækka og blómstra. Af því að um er að ræða fjallveg yfir Hellisheiði, sem er langfjölfarnasti fjallvegur á landinu, þarf hann að vera eins vel búinn og hægt er. Umferðaröryggi er ekki nægjanlegt eins og staðan er og því hlýtur það að vera forgangsatriði að krafan um tvöfaldan veg á næstu fjórum árum liggi til grundvallar, við ræðum það betur á eftir og sérstaklega í ljósi þeirra talna um umferðaraukningu sem hæstv. samgönguráðherra mun kynna okkur þá. Allt tengist þetta. Þetta er algert grundvallarmál. Þarna er líka um það að ræða að íbúatalan á Suðurlandi tvöfaldast flestar helgar, þegar sumarhúsaeigendur og heilsárshúsaeigendur mæta á svæðið, og fer hátt í 20 þúsund.