132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Aukning umferðar.

472. mál
[14:18]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Fram kom í tölum hæstv. samgönguráðherra að gríðarleg aukning hefur orðið á umferð á milli Selfoss og Reykjavíkur úr rúmlega 3.500 bílum á dag að meðaltali upp í næstum því 6 þúsund á tíu ára tímabili. Sömu sögu má segja um Þrengslin.

Þetta leiðir hugann að því að auðvitað er ekki alltaf lausnin að byggja breiðari vegi og fjölga akreinum. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda að draga úr slíkri bílaumferð en það hefur alls ekki verið gert. Við vitum að strandsiglingar hafa verið lagðar niður og umferðin og þá sérstaklega þungaumferðin flyst upp á vegina í síauknum mæli. Það er alvarlegt mál sem samgönguyfirvöld ættu að taka á.