132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Suðurlandsvegur.

473. mál
[14:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson veit það mætavel að svör mín hér eru algerlega í samræmi við það sem hefur komið fram opinberlega áður hjá mér um þau áform að gera ráð fyrir uppbyggingu vegarins austur fyrir fjall. Það er óþarfi fyrir hann að reyna að snúa út úr því.

En ég verð að segja eins og er að þessi þingsályktunartillaga er mjög sérstök. Það er tiltekið vinnulag í þinginu um gerð samgönguáætlunar og það er hvorki meira né minna en bundið í lög hvenær á að endurskoða samgönguáætlun. Ég verð að segja alveg eins og er að það er auðvitað fullkomin sýndarmennska hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að leggja fram sérstaka þingsályktunartillögu þegar það liggur ljóst fyrir að hún er algerlega á skjön við þau vönduðu vinnubrögð sem við höfum verið að tileinka okkur í þinginu hvað varðar undirbúning við gerð samgönguáætlana. Það blasir auðvitað við og þjóðin áttar sig á þessu að þar er verið að slá keilur og láta líta svo út að stjórnarliðið sé í einhverri vörn í þessu máli. Það er öðru nær.

Við höfum gert ráð fyrir, eins og ég sagði áður, meiri fjármunum í uppbyggingu vegakerfisins en nokkru sinni áður og við höldum okkar striki þrátt fyrir þessi sjónarmið sem koma fram hjá hv. fyrirspyrjanda og fleirum.

Aðalatriði málsins er þetta: Það ríkir fullkomin samstaða innan stjórnarflokkanna um að ná verulega stórum áföngum við uppbyggingu vegarins austur fyrir fjall á næstu missirum.