132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Rekstur vöruhótela.

492. mál
[14:48]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem er í tvennu lagi:

Í fyrsta lagi er spurt: „ Hafa möguleikar til reksturs fleiri vöruhótela en nú eru í rekstri verið kannaðir og kemur til greina að hið opinbera taki þátt í stofnun eða hvetji til rekstrar slíkrar starfsemi í þeim tilgangi að hafa áhrif á vörudreifingu með þungaflutningum um landið?“

Svar mitt er svohljóðandi: Með vöruhótelum á fyrirspyrjandi væntanlega við samsvarandi og þau tvö vöruhótel á vegum Samskipa og Eimskips sem starfrækt eru í Reykjavík. Ekki hefur verið kannað af hálfu ríkisins hvort hagkvæmt væri að stofna fleiri hótel af þessu tagi en þegar eru rekin og hefur ekki verið um það rætt að ríkið tæki þátt í stofnun slíkra vöruhótela. Lögmál markaðarins, samkeppnin, framboð og eftirspurn, mun leiða til þess að hagkvæmasta lausnin í flutningnum verður ofan á á hverjum tíma. Það er mat mitt sem samgönguráðherra.

Í annan stað er spurt: „Ef svo er ekki, er ráðherra þá tilbúinn að láta kanna hagkvæmni slíks reksturs og áhrif hans á þungaflutninga á vegum landsins?“

Það hefur verið skoðun mín sem ráðherra að slíkur rekstur eigi best heima hjá einkaaðilum og í samkeppni. Er það í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað, þ.e. að ríkið hefur sem mest losað sig út úr rekstri þar sem eðlilegt er að samkeppni ríki. Auðvitað geta komið fram umhverfissjónarmið sem krefjast betri nýtingar flutningatækjanna. Ég held að skilaboðum um slíkt sé hægt að koma til markaðarins með ýmsum hætti öðrum en beinni aðkomu ríkisins að fyrirtækjum.

Þær aðferðir sem ríkið getur haft í frammi til að auka hagkvæmni í flutningastarfsemi á sjó og landi er í fyrsta lagi góð hafnaraðstaða, sem er auðvitað lykilatriði hvað varðar sjóflutningana, í öðru lagi afkastamikið vegakerfi, sem verið var að ræða áðan að væri mikilvægt, og í þriðja lagi hófleg skattlagning flutningamáta. Þetta eru mikilvægustu þættirnir sem hið opinbera getur lagt áherslu á í þessu samhengi.

Vegna þessarar fyrirspurnar tel ég rétt að taka fram að ég tel sjálfsagt að fara yfir þessi mál og í tengslum við samgönguáætlun þarf auðvitað að skoða alla kosti til að gera flutninga í landinu sem allra hagkvæmasta. Ég ýti engu út af borðinu við þá skoðun, ég tel að það sé eðlilegt en ég sé ekki fyrir mér að ríkið kæmi með beinum hætti að rekstri slíkra vöruhúsa sem fyrirspurnin gengur út á.

Í samgönguráðuneytinu er í tengslum við samgönguáætlun verið að líta yfir og fara yfir flutningatækni hvers konar. Það skiptir mjög miklu að við Íslendingar veltum fyrir okkur hvernig við getum beitt okkar tækjum, skipum og bílum og þessum flutningaleiðum sem best þannig að til hagkvæmni horfi. Í samgönguáætluninni er meðal markmiða sem við viljum ná, hagkvæmni í flutningum, minni mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Því skiptir mjög miklu máli að við veltum fyrir okkur flutningafræðinni, það er orðin heil fræðigrein. En auðvitað þarf að skoða alla kosti. Ef það telst hagkvæmt hjá flutningafyrirtækjunum að hafa fleiri en eina bækistöð af því tagi sem fyrirspyrjandi nefnir hér þá get ég ekki ímyndað mér annað en að fyrirtækin, sem eru auðvitað rekin á forsendum þess að afrakstur sé af rekstrinum, leiti leiða til að fjárfesta í þeim tækjum og mannvirkjum sem þau telja nauðsynlegt að fjárfesta í til að hámarka afraksturinn af eign sinni og þeim rekstri sem um er að ræða.

Ég endurtek að við hljótum að skoða alla þætti flutningamálanna hverju sinni þegar við afgreiðum langtímaáætlun um samgöngur.