132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Rekstur vöruhótela.

492. mál
[14:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er svolítill misskilningur uppi. Ég lagði hvergi til í þeim hugmyndum sem ég fór yfir að ríkið ræki slík fyrirtæki heldur að kannað yrði hvort það væri hagkvæmt að reka þau, að það yrði kannað hvort ríkið gæti með einhverjum hætti tekið þátt í því að liðka fyrir stofnun slíks fyrirtækis. Fyrst og fremst kem ég þessu í umræðuna til að menn skoði þetta út frá fleiri hliðum en hæstv. ráðherra gerði, þegar hann talaði um að það hlyti að vera framboð og eftirspurn og hagkvæmni flutningafyrirtækjanna sem þarna réði, því að það er óvart annar kostnaður inni í þessu líka. Það er kostnaðurinn sem felst í flutningunum um landið, það er mengunin og kostnaður vegakerfisins. Hann skiptir okkur máli og hann þarf að taka inn í þetta reikningsdæmi.

Þessi rekstur ætti auðvitað að vera á hendi einkaaðila alveg eins og rekstur vöruhótela er. Það er hins vegar alls ekki útilokað að það borgi sig að liðka fyrir því að slíkt fyrirtæki verði til. Mér finnst það satt að segja liggja nokkurn veginn í augum uppi að það hljóti að koma að því að það borgi sig að dreifa vörum t.d. frá Akureyri um Norðurland og draga með því verulega úr þungaflutningum þvert yfir landið, stytta flutningaleiðir og koma þjónustunni til skila með hagkvæmum hætti og minni mengun. Þetta er verkefni sem stjórnvöld hljóta að bera ábyrgð á að skoða og það getur ekki verið að það sé ekki á verkefnaskrá hæstv. samgönguráðherra að skoða slík mál. Ég tel reyndar að það hefði átt að vera búið að setja af stað athugun á þessu fyrir löngu á þann hátt að hægt væri að leggja spilin á borðið um það hvar hagkvæmnin liggur og hvort hið opinbera er í raun og veru að blæða miklu (Forseti hringir.) í kostnaði vegna þessara flutninga sem hægt væri að nota frekar til að styðja við bakið á stofnun svona fyrirtækis.