132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Menntun leikskólakennara.

437. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sveitarfélögin vinna í að bæta starfsumhverfið og eins og allir vita sem fylgst hafa með þróun mála undanfarið eru þau að hækka launin. En að mínu mati er það einungis annað tveggja sem þarf að gera. Fjölgun leikskólakennara, eins og ég nefndi áðan, er annar stór liður í að bæta ástandið. Ég kom inn á það áðan að starfsmannaveltan er allt of mikil, viðvarandi starfsmannavelta á leikskólunum. Hún er langmest í hópi ófaglærðra og því hljótum við að breyta með því að fjölga þeim sem gera störf á leikskólum að ævistarfi. Til þess þarf að fjölga leikskólakennurum. Ég sakna þess að fá ekkert að vita um framtíðarsýn hæstv. menntamálaráðherra, hvað hún teldi eðlilegt hlutfall faglærðra á leikskólunum og hvað eigi að gera til að ná því markmiði. Hafa einhver markmið verið sett í því sambandi?

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ítrekað, bæði núna og líka í umræðum um málið utan dagskrár í haust, frætt okkur um að útskrifaðir leikskólakennarar fari til starfa annars staðar. Ég sakna þess að heyra frá hæstv. menntamálaráðherra hvert leikskólakennararnir fara. Mig grunar að fjölmargir þeirra séu innan grunnskólanna vegna þess að það þarf ekki að bæta miklu við leikskólakennaranám til að fá réttindi til að starfa innan grunnskólanna. Þegar við ræðum þetta mál þá verðum við að gera það á slíkum forsendum og að mínu mati er það verkefni menntamálaráðherra ekki síður en sveitarfélaganna. Þetta á að vera samstarf vegna þess að stór hluti verkefnisins snýr beint að ráðherranum, þar sem hún sér um að mennta leikskólakennarana.