132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:42]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu opinberast bullandi ágreiningur stjórnarflokkanna. Félagsmálaráðherra vill ekki leggja niður Íbúðalánasjóð en þingmaður íhaldsins vill hann greinilega burt. Ráðherrann hefur verið píndur til að leika biðleik, fresta ákvörðunartöku um framtíð sjóðsins til haustsins. Ráðherrarnir vilja ekki láta reyna á þennan djúpstæða ágreining því að það gæti sprengt stjórnarsamstarfið og ráðherrastólunum vilja þeir halda á hverju sem gengur.

Staðan á íbúðamarkaði er nú sú að KB-banki rær að því öllum árum að koma Íbúðalánasjóði út af markaðnum og ná þar einokunaraðstöðu og kostar til þess því sem þarf, jafnvel þótt það þýði tímabundið undirboð á vöxtum. Greinilega hefur hann til þess stuðning íhaldsins og að líkindum formanns Framsóknarflokksins einnig. Það birtist m.a. í því að líklegt er að Íbúðalánasjóður hafi verið beittur pólitískum þrýstingi til að hækka vexti á íbúðalánum sínum og svo fær Íbúðalánasjóður ekki að hækka hámarkslánin. 90% lánin sem Framsóknarflokkurinn lofaði er nú kominn niður í 70% af verði meðalíbúða og hækka þarf hámarkslán Íbúðalánasjóðs um 5 millj. samkvæmt mati nokkurra ráðgjafa ráðherrans sjálfs til að fjármögnunin sé 90% af meðalíbúðaverði. Ráðherra lofaði að þessi lán mundu halda verðgildi sínu og ég spyr ráðherrann hvers vegna hann svíki það loforð. Ég óska eftir því að hann svari því við þessa umræðu.

Ef breyta á fyrirkomulagi íbúðalána verður að tryggja að ekki verði dregið úr samkeppni, að jafnræði ríki á milli landsbyggðar og þéttbýlis í lánveitingum og að félagslegi hluti íbúðalánakerfisins verði tryggður án þess að minnka þjónustu og hækka vexti og þjónustugjöld. Það er grundvallaratriði ef breyta á framtíðarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs.

Öll þessi markmið eru nú í hættu, og þingmanni íhaldsins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, virðist vera gjörsamlega sama. Þess vegna er enn þörf á Íbúðalánasjóði um sinn.