132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hér koma á framfæri sérstaklega því sem stendur í stefnu Framsóknarflokksins varðandi íbúðamál. Þar stendur, með leyfi forseta: „Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að áfram verði tryggt að allir landsmenn, hvar sem þeir búa, hafi jafnan aðgang að fjármagni til húsnæðiskaupa, á hagkvæmustu kjörum hverju sinni.“

Það er alveg skýrt hvaða stefnu við höfum. Við höfum þau pólitísku markmið að allir, óháð því hvar þeir búa, hafi jafnan aðgang að sem hagkvæmustu kjörunum. Nú er það þannig að bankarnir hafa ekki sérstök pólitísk markmið eins og stjórnmálaflokkar. Þeir hafa auðvitað arðsemismarkmið. Við verðum að líta til þess. Það eru ekki alveg sömu markmiðin sem bankarnir hafa á bak við sína starfsemi og stjórnmálaflokkar. Hins vegar hafa orðið mjög miklar breytingar á íbúðalánamarkaði og auðvitað ber okkur að taka tillit til þess. En við viljum samt ekki missa af þessum pólitísku markmiðum. Það hefur komið hér skýrt fram að í gangi er starf við endurskoðun á lögunum um húsnæðismál enda er búið að kalla eftir því, m.a. af hálfu Ríkisendurskoðunar. Við tókum það sérstaklega fyrir í félagsmálanefnd fyrir jól að þar þarf að skýra ákveðin atriði. En það er búið að koma því skýrt hér á framfæri að ekki er neitt verið að rasa um ráð fram. Það er verið að efna til víðtæks samráðs um hvernig framtíðinni á að vera háttað í þessum málum. Þessi mál eru í deiglunni.

Hins vegar er alveg ljóst að það er þrýstingur á stjórnvöld. Hér var komið inn á að núna stendur yfir viðskiptaþing, og viðskiptaráð er þar með framtíðarsýn sína til ársins 2015. Það kemur alveg fram í framtíðarsýn viðskiptaráðsins að Íbúðalánasjóður eigi að fara af samkeppnismarkaði í þessu, eigi að hverfa af markaði og að koma eigi upp einhverri lánastofnun landsbyggðarinnar þar sem Byggðastofnun og (Forseti hringir.) Íbúðalánasjóður gætu runnið saman í eitt. Það eru einhverjar hugmyndir sem ég sé ekki að séu til góðs í þessu máli.