132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:53]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er gjarnan í utandagskrárumræðum sem eitthvað skemmtilegt gerist. Í þessari umræðu má segja að það skemmtilegasta hafi verið að hlusta á hvílíkur munur er á orðfæri fulltrúa unglingadeildarinnar í Sjálfstæðisflokknum og síðan öldungadeildarinnar. Það er eins og svart og hvítt. Það er ólíku saman að jafna. Ef ég ætti að halla mér að annarri hvorri deildinni verð ég að segja eins og er að ég ætti nú betur heima í öldungadeildinni. Málflutningur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar var miklu nær mínum hugmyndum í þessum efnum en málflutningur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem sagði m.a. hér að hinum félagslegu markmiðum mætti ná á miklu einfaldari hátt. Hv. þingmaður sleppti hins vegar algerlega að benda á hvernig hægt væri að tryggja að þessi félagslegu markmið næðust á þennan einfalda hátt. Það hefur komið fram í umræðunum að enginn hér nema hv. þingmaður ræðir um að það sé mögulegt að gera það með því að leggja niður Íbúðalánasjóð. Það væri forvitnilegt að fá að heyra þau viðhorf frá hv. þingmanni hvernig eigi að vera hægt að tryggja hin félagslegu markmið á miklu einfaldari hátt en með því að viðhalda Íbúðalánasjóði.

Það er annað, frú forseti, sem vakti líka athygli mína í þessum umræðum. Það er tvennt í raun og veru sem nú um stundir veikir stöðu Íbúðalánasjóðs. Ef hæstv. ráðherra er svona ákveðinn í að halda honum gangandi liggur á að hæstv. ráðherra taki ákvarðanir um að hækka þakið sem sett er á lánin og eins viðmiðanirnar við brunabótamatið. Ef slíkar ákvarðanir eiga að bíða og bíða vegna þess að það er einhver ágreiningur á milli stjórnarflokkanna veikist sjóðurinn jafnt og þétt og þá gæti orðið andskoti lítið eftir af sjóðnum þegar fram líða stundir.

Þannig að það liggur á, frú forseti, að hæstv. ráðherra standi þannig að málum að ákvarðanir um þessa þætti Íbúðalánasjóðs verði teknar fyrr en síðar ef markmiðið er að hann lifi áfram og verði jafntraustur og verið hefur.