132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessu máli hefur einnig verið ágætur samhljómur með stjórnarandstöðunni og, aldrei þessu vant, talsmönnum Framsóknarflokksins. Í sameiningu erum við staðráðin í að hrinda aðför Verslunarráðsins, bankanna og Sjálfstæðisflokksins að Íbúðalánasjóði. Þessir aðilar hafa sótt að sjóðnum núna um nokkurra missira skeið með bænaskjölum til Stjórnarráðsins, í vinnunefndum Alþingis og fyrir dómstólum Evrópusambandsins, fyrst EFTA-úrskurðar dómstóls EES-svæðisins og nú einnig fyrir Evrópudómstólnum. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þessir aðilar leggja mikið upp úr því að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef.

Íbúðalánasjóður gegnir mjög mikilvægu félagslegu hlutverki. Það hefur verið um það rætt að takmarka umsvif hans og það hefur verið vísað í Noreg í því efni þar sem sambærilegur sjóður hefur um 12% af markaðnum. Hugsunin er þá sú að hann sinni félagslegum úrlausnarefnum, lánum til hinna dreifðu byggða o.s.frv. Hér má ekki gleyma því að Íbúðalánasjóður er sjálfbær eins og kallað er. Hann aflar lánsfjármagns á markaði og kostnaðurinn við fjármagnið ræðst af veðunum sem búa að baki. Ef við rýrum veðin eða látum hann einvörðungu hafa hin erfiðu veð að baki sér verður fjármagnið dýrara fyrir vikið. Þjóðhagslega er mjög mikilvægt að umsvif Íbúðalánasjóðs verði ekki skert á nokkurn hátt. Og við erum staðráðin í að reyna að standa vörð um sjóðinn.

Við beinum þeirri áskorun til Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) að hann standi í fæturna í þessu máli og láti það ekki henda sig sem gerðist í málefnum Ríkisútvarpsins þar sem hann (Forseti hringir.) lak niður og hljóp frá öllum loforðum sínum og fyrirheitum.