132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[15:58]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni. Það er ýmislegt skemmtilegt að gerast hér í þingsalnum. Ég þakka fyrir fjörlegar umræður. Til þess er leikurinn gerður. Ég ætla nú að taka saman hér nokkra hluti sem menn voru að ræða.

Ef ég skil þetta rétt hafa menn áhyggjur af því, eðlilega, að ef menn vildu breyta um kúrs varðandi Íbúðalánasjóð mundi það koma illa niður á íbúum landsbyggðar og hugsanlega fólki sem hefur minni fjárráð. Ég vil benda á að við Íslendingar erum ekki þau einu sem hugsum svona. En við erum hins vegar þau einu sem förum þá leið að vera með sérstakan ríkisbanka sem er í bullandi samkeppni sem þarf ekkert að vera. Hér spurði hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sem er eðlilegt og sanngjarnt, hvaða hugmyndir sá hafi sem hér stendur. Ég bendi t.d. á hugmyndir þar sem menn eru með skuldabréfasafn sem er gefið út þar sem m.a. ákveðið hlutfall þess er það sem kallað er þessi félagslegu úrræði. Það hefur gengið vel annars staðar. Ég bendi sömuleiðis á þær leiðir okkar sem við erum að bera okkur saman við annars staðar á Norðurlöndunum þar sem menn m.a. eru með opinbera stofnun sem er með ákveðinn hluta. Það er skilvirkara og betra og nær sömu markmiðum. Við erum öll sammála um markmiðin, alveg sama á hvaða aldri við erum. Ég veit að hv. þm. Einar Már Sigurðarson er miklu yngri en hann lítur út fyrir að vera, a.m.k. í anda.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nú er kærumál í gangi fyrir EFTA- og EES-dómstólum út af aðkomu ríkisins í þessu máli. Það nýjasta í því máli er að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem margir trúa á hér inni, hefur efnislega tekið undir málstað Sambands banka og verðbréfafyrirtækja vegna þess að þau telja að um ójafna samkeppnisstöðu sé að ræða. Ég fagna því að þeir aðilar, bæði hæstv. ráðherra sem ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir skýr svör (Forseti hringir.) og aðrir, hafa talað um að það sé mikilvægt að skilgreina hlutverkið í ljósi breyttra aðstæðna.