132. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2006.

Íbúðalánasjóður.

[16:00]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Það er full ástæða til fyrir okkur á Alþingi að ræða þessi mikilvægu mál reglulega og ég þakka málshefjanda fyrir það frumkvæði.

Ég hef verið spurður hér, m.a. af hv. þingmönnum Jóhönnu Sigurðardóttur og Einari Má Sigurðarsyni, hvers vegna hámarkslán Íbúðalánasjóðs hafi ekki hækkað á undanförnum vikum og mánuðum. Svarið við því er að í ljósi mikillar spennu á húsnæðislánamarkaði á síðasta ári, ekki síst á seinni hluta þess árs, þótti mér ekki skynsamlegt að hækka lánin mikið á þeim tíma. Hins vegar er það alveg rétt ábending að tími er kominn til þess. Sú ábending hefur einnig komið fram af hálfu stjórnar Íbúðalánasjóðs að það sé orðið nauðsynlegt og ég er með það til umfjöllunar í ráðuneyti mínu einmitt þessa dagana.

Sömuleiðis hefur verið bent hér á að brunabótamatsviðmiðunin kunni að vera úrelt viðmið og við erum sömuleiðis með það til skoðunar án þess að ég vilji kveða upp úr með það hér hver niðurstaðan í þeirri vinnu verður.

Ég vil sömuleiðis ítreka það við þessa umræðu að ég tel óhætt að fullyrða að Íbúðalánasjóður sé sá aðili á fjármálamarkaði sem mest eftirlit er með um þessar mundir. Þá á ég bæði við innra eftirlit þar sem virtur erlendur aðili kemur að málum og einnig ytra eftirlit þar sem Fjármálaeftirlitið er sá aðili sem hefur skilgreint eftirlitshlutverk samkvæmt lögum um húsnæðismál. Jafnframt hefur Ríkisábyrgðasjóður fylgst með þróun mála hjá sjóðnum og nú síðast hefur Ríkisendurskoðun hafið úttekt á fjárhag sjóðsins að minni beiðni og fjármálaráðherra. Þetta vildi ég ítreka við þessa umræðu.

Stjórnarandstaðan hefur haft gaman af því að gera hér mikið úr ágreiningi stjórnarflokkanna í þessu máli en ég tel að ekki sé um djúpstæðan ágreining að ræða. Stjórnarflokkarnir eru algerlega samstiga í því að fara í úttekt og víðtækt samráð um mótun á framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs. Ég vil hins vegar undirstrika að ég er eindregið þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður hafi áfram mikilvægu hlutverki að gegna á íbúðalánamarkaðnum og muni svo verða um alla framtíð, a.m.k. einhverja. Aðferðirnar við að ná pólitískum markmiðum kunna að breytast í framtíðinni, rétt eins og fortíðinni, en að leggja sjóðinn niður við þessar aðstæður kemur ekki til greina í mínum huga, hæstv. forseti, það er alveg skýrt.