132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:39]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að koma á óvart að vinstri grænir fari af hjörunum þó að forsætisráðherra komi með meiningar sem hann hefur áður viðrað, því menn nýta tækifærið, koma hér upp og gera eitthvað miklu meira úr því en efni standa til. En hér hefur einmitt komið fram bæði hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra og talsmanni Samfylkingarinnar í umræðunni að þessi viðhorf hafa áður komið fram.

Ég tel mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þessi umræða er algerlega óháð aðild að Evrópusambandinu. Ljóst er að við viljum gjarnan fá betri tollaðgang að mörkuðum ESB. Það er mjög mikilvægt fyrir sjávarútveginn. Fram hefur komið að þegar við höfum knúið á um slíkt hefur verið bent á þær takmarkanir sem gilda í fjárfestingum í sjávarútvegi og það hefur margoft komið fram á opinberum vettvangi. Það er því mjög eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli segja að tímabært sé að endurskoða þessar ákvarðanir okkar um takmarkanir, t.d. í sjávarútvegi.

Ekki má heldur gleyma því að Íslendingar hafa verið að fjárfesta í sjávarútvegi hjá öðrum Evrópulöndum. Ég tel því mjög eðlilegt að farið sé yfir þessi mál í heild sinni og þau skoðuð. Við vitum ekkert hver niðurstaðan yrði af slíkri endurskoðun en það er alls ekki óeðlilegt að við förum yfir það.

Ég vil hins vegar taka fram vegna þeirra hnútukasta sem hér komu fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar út í hæstv. forsætisráðherra vegna ræðunnar, þá kallaði hv. þingmaður að þetta væri draumur og vísaði þá í annað mál sem er aðild að ESB. Ég mundi miklu frekar kalla það raunsæi. Þarna var um spá að ræða og hæstv. forsætisráðherra taldi að við Íslendingar værum orðnir aðilar 2015. Ég held að það sé miklu nær því að vera raunsæi en draumur.