132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lýsa yfir vonbrigðum með að hjarðsveinninn mikli, sem dreymdi upphátt hina stóru drauma í gær um aðild að Evrópusambandinu og innkomu útlendinga í íslenskan sjávarútveg, skuli ekki hafa séð sér fært að vera hér við upphaf þingfundar í dag. Ég er að sjálfsögðu að tala um hæstv. forsætisráðherra.

Verið er að tala um að heimila útlendingum að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Það má spyrja nokkurra grundvallarspurninga.

1. Hefur íslenskur sjávarútvegur staðið frammi fyrir einhverjum skorti hvað varðar aðgang að fjármagni? Ég fæ ekki séð það. Ef við skoðum skuldaþróun íslensks sjávarútvegs má frekar færa rök fyrir því að sjávarútvegurinn hafi hreinlega búið við allt of gott aðgengi að fjármagni og hafi þannig skuldsett sig upp fyrir hæstu rjáfur þannig að stórhætta stafar nú af.

2. Skyldu útlendingar hafa áhuga á að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi? Ég held ekki. Ég hef ekki orðið var við að erlendir aðilar hafi haft mikinn áhuga á að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Þeir hefðu getað gert það eftir krókaleiðum ef þeir hefðu kært sig um. Það eru margar útgerðir við Norður-Atlantshaf sem hafa mikið fé á milli handanna, til að mynda í Noregi. Þær hafa ekki sýnt minnsta snefil af áhuga á því að koma hér inn og fjárfesta í íslenskum útgerðum.

3. Íslenskar útgerðir, sjávarútvegsfyrirtæki hafa staðið fyrir útrás á erlendri grundu og ég get ekki séð að það hafi nokkuð hindrað þær í þeirri för nema kannski óarðbærar fjárfestingar á stundum.

4. Hvað ættu útlendingarnir síðan að kaupa? Ég get ekki séð að ástand fiskimiðanna í kringum landið sé með þeim hætti að þar sé feitan gölt að flá, því miður. Loðnan er niðri, þorskurinn er niðri, flatfiskstofnarnir eru niðri, hörpudiskurinn er niðri, rækjan er niðri. Þeir gætu kannski keypt ýsu en hún er verðlítil. (Forseti hringir.) Og síðan kannski svolitla síld. Það er allt og sumt.