132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:48]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við Íslendingar höfum eignast nýjan spámann, það kom í ljós í gær. Svo vill til reyndar að hann er einnig hæstv. forsætisráðherra landsins. Reyndar hefur á þeim bænum oftar verið hugsað fjögur ár fram í tímann en ekki heil níu eins og kom fram í ræðu Halldórs Ásgrímssonar í gær á þingi Verslunarráðs.

Það sem vekur athygli mína sérstaklega í þessu er þögn formanns Sjálfstæðisflokksins í málinu. Reyndar er það svo að hæstv. utanríkisráðherra er alltaf að sjást minna og minna í þingsal og hann gefur engin komment á málið í fjölmiðlum, lætur gefa það út. Hér er hins vegar um grafalvarlegt mál að ræða, aðganginn að auðlindinni. Ætli það verði hlutverk Framsóknarflokksins að leiða okkur inn á þá braut á sjálfkrafa færibandi? Eins og mér virtist að mætti skilja á málflutningi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að við værum bara á einhverju sjálfkrafa færibandi inn í Evrópusambandið og það væri ekkert við það ráðið.

Mér þykir þetta mjög einkennilegur málflutningur og ég ætla að segja það hér að auðvitað er það ekki þannig. Það verður náttúrlega barist gegn því vegna þess að þetta mál snýst að mjög miklu leyti um sjálfstæði þjóðarinnar, grundvöllinn fyrir því að búa í landinu og það sem gerir okkur að þjóð.