132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alltaf hollt að líta til framtíðar og velta því fyrir sér hvernig hún gæti orðið eftir bestu manna yfirsýn. Við höfum fyrir okkur þær staðreyndir að á undanförnum árum hefur okkur tekist að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar meira en nokkur önnur þjóð í Evrópu hefur gert. Við búum við það umhverfi í dag, sem er ánægjulegt, að óteljandi tækifæri eru til að halda áfram að bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar við þær aðstæður sem eru, utan Evrópusambandsins. Það er enginn skortur á aðilum sem vilja nýta íslenskar auðlindir, vatnsorku og jarðhita. Og ekki virðist vera neinn skortur á erlendum aðilum sem eru tilbúnir til að líta til Íslands sem viðskiptatækifæris og taka þar þátt í því með okkur að bæta kjör íslensku þjóðarinnar og halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið undanfarinn áratug eða svo.

Virðulegi forseti. Þetta hefur okkur tekist án þess að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ég sé ekki nein teikn á lofti um að okkur sé nein nauðsyn að ganga þar inn fyrir þá múra sem þar eru til að takmarka möguleika okkar á að sækja fram til betri framtíðar.

Virðulegi forseti. Umræða hefur áður farið fram um hvort skynsamlegt sé íslenskum hagsmunum að leyfa útlendum aðilum að kaupa veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu. Við höfum ávallt komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki, það þjónaði ekki hagsmunum Íslendinga að gera slíkt. Það er ekkert sem fram hefur komið í þessari umræðu nú sem að mínu mati breytir þeirri niðurstöðu sem ég hef komist að. Við eigum að nýta auðlindir landsins okkur til framdráttar og það er enginn hagur í því sjáanlegur að við bætum stöðu okkar með því að leyfa útlendingum að nýta íslensku auðlindina í sjónum og færa arðinn af henni úr landi.