132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

[10:52]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að afar mikilvægt sé að við höfum í huga við hvaða aðstæður ummæli hæstv. forsætisráðherra féllu á viðskiptaþingi í gær. Þar var um það að ræða að viðskiptaþing lagði upp ákveðna framtíðarsýn. Hvernig lítur íslenskt samfélag út árið 2015? Að sjálfsögðu var hæstv. forsætisráðherra að greina frá sinni sýn hvað það varðar. Menn geta talað óvirðulega um það sem drauma eða draumóra en forsætisráðherra hefur auðvitað rétt á að hafa þá skoðun að Ísland verði orðið aðili að Evrópusambandinu á þeim tíma.

Hins vegar er ljóst að það eru afar margir sem ekki deila þeirri skoðun og ég er í þeim hópi, tel ekki að Ísland verði orðið aðili að Evrópusambandinu árið 2015. Stjórnarstefna ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar er afar skýr. Menn hafa sett ákveðna vinnu í gang við að skoða kosti og galla Evrópusambandsaðildar eins og gert hefur verið oftar á undanförnum árum. Hins vegar hefur ekki verið mörkuð framtíðarstefna af hálfu núverandi ríkisstjórnar um að ganga inn í Evrópusambandið og ég held að ótímabært sé að tala um þessi mál á þeim nótum.

Ástæðan fyrir því að við höfum ekki tekið það skref að hefja undirbúning aðildarviðræðna er auðvitað sú að okkur vegnar vel við núverandi aðstæður. Okkur hefur vegnað afar vel í efnahagsmálum og því eru engar efnahagslegar forsendur sem knýja okkur til aðildar og slíkar aðstæður eru heldur ekki að mínu mati fyrirsjáanlegar á næstu árum. Við verðum auðvitað stöðugt að ræða þetta, fylgjast með þróun og taka þátt í umræðu. En þessar forsendur eru hvorki komnar fram né fyrirsjáanlegar. (Forseti hringir.) Okkur hefur vegnað afar vel og við eigum þess vegna að halda áfram á sömu braut.