132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:03]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta eru svo sem útúrsnúningar hjá hv. þingmanni. Ef hann telur enga ástæðu til að ræða þessa skýrslu er ég alveg tilbúin að sleppa því. (JBjarn: Já.) (Gripið fram í: Gott.) Alveg tilbúin í það. Hins vegar er það þannig að lögum samkvæmt ber iðnaðarráðherra að leggja fram skýrslu um framvindu byggðamála. (Gripið fram í: Á hún alltaf að vera eins?) Það getur vel verið að einhverjir þættir sem koma fram í skýrslunni séu lítið breyttir milli ára. (Gripið fram í: … þróun.) Engu að síður er ástæða til að halda hlutum til haga og koma í skýrslum fram með það sem gert er, og það sem gert er vel því það er nú ýmislegt. Svo get ég t.d., með leyfi forseta, vitnað í ákveðinn þátt í þessari skýrslu sem mér þykir ákaflega ánægjulegur og er á bls. 5 … (Gripið fram í: Hvaða skýrslu?) Ég er með skýrsluna sem við erum að fara að ræða á eftir. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þegar tölur um íbúaþróun á landinu á tímabilinu 1996–2000 og svo aftur 2000–2004 eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrra tímabilinu fækkaði íbúum landsbyggðar um rúmlega 2000 en fjölgaði um tæplega 1500 á síðara tímabilinu.“

Þetta held ég að sé til vitnis um að sú sem hér stendur og tók við þessum málaflokki 1. janúar árið 2000 hafi staðið sig allvel. Þess vegna er ég ákaflega bjartsýn núna við upphaf þessarar umræðu og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa vakið athygli á því að þessi skýrsla er til umfjöllunar og hefur ýmsan góðan boðskap að flytja.