132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar.

[11:07]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum að fara að ræða hér skýrslu um stefnumótandi byggðaáætlun. Ég vona að við förum að komast í þá umræðu en í tilefni af þeirri umræðu sem hefur farið hérna fram lýsi ég yfir þeirri von minni að hæstv. iðnaðarráðherra sé ekki bara að leggja skýrsluna fram af því að lögin segja til um það. Ég var eiginlega að vonast til að við gætum rætt hér skýrslu vegna þess að það væri eitthvert mark á henni takandi og hér væri eitthvert efni á mörgum síðum sem hægt væri að fara eftir, og jafnvel gera betur í byggðamálum. Það er virkilega það sem við þurfum á að halda. Við þurfum ekki á því að halda að leggja fram ótal skýrslur, sama hvort þær eru nákvæmlega eins og þær voru fyrir þremur árum, eða hvað veit ég.

Byggðamál er eitt af mikilvægustu málunum, brenna auðvitað á stórum hluta þjóðarinnar og þess vegna finnst mér dálítið leiðinlegt að í þessum umræðum skuli vera talað eins og þetta sé eitthvert mál sem sé bara lagalegs eðlis sem þurfi að leggja fram og þess vegna sé hæstv. iðnaðarráðherra neyddur til að gera það, enn aftur og aftur.