132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:34]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í mál sem kemur fram í skýrslu ráðherrans um framvindu byggðaáætlunar þar sem gerð er grein fyrir starfsskilyrðum atvinnuveganna. Þar kemur fram að á vegum iðnaðarráðuneytisins hafi verið kannaðir möguleikar á að taka upp endurgreiðslu til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Síðan kemur fram að ekki hafi náðst samstaða um framgang þessa máls milli ráðuneytanna þriggja sem að því áttu að koma, iðnaðar-, samgöngu- og fjármálaráðuneytis. Það mun hafa komið fram á fundi með þingmönnum Norðausturlands hjá hæstv. iðnaðarráðherra að það væri samstarfsflokkur Framsóknarflokksins í ríkisstjórn sem stöðvaði allar aðgerðir í þessu hvað varðaði lækkun flutningskostnaðar og það að styrkja með einhverjum hætti framleiðslufyrirtæki í þeim efnum.

Er þetta rétt, hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) og hvað líður þessu máli?

(Forseti (SP): Forseti vill minna á það að orðaskipti í andsvörum mega eigi standa lengur en 15 mínútur í einu þannig að aðeins fjórir hv. þingmenn geta veitt andsvar.)