132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi veit ég ekki hvað hv. þingmaður er að meina þegar hann segir að ekkert mark sé á skýrslunni takandi. Það kemur einmitt fram í henni að ekki hafi náðst pólitísk samstaða um að fara í endurgreiðslu vegna flutningskostnaðar þannig að það mál er búið.

Hvað varðar vaxtarsamninginn er það mjög nútímaleg aðferð í byggðamálum sem þar á sér stað. Við erum að setja í þetta milljónatugi á hverju ári og alls hefur samningurinn, ef ég man rétt, 70 millj. á ári til að spila úr. Það eru heilmiklir peningar. Nú þegar er þessi samningur farinn að skila sér ákveðið til fólksins. Við erum að færa stefnumótun heim í hérað með þessu. Miðað við það hve mikil eftirsókn er eftir því að fá svona samninga við ríkið á hinum ólíkustu stöðum, nánast á öllu landinu, held ég að það hljóti að þýða að fólk hefur trú á þessu.

Ég er alveg sannfærð um að þetta er góð aðferð. Hún fellur mjög vel að því sem við síðan erum almennt að gera í atvinnuþróunarmálum á landsbyggðinni. Við getum kannski komið betur að því síðar.