132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er að koma út úr þessari vinnu er m.a. klasasamstarf á ýmsum sviðum. Hundruð manna hafa komið að samstarfinu sem varðar vaxtarsamninginn á Akureyri. Ég er alveg sammála hv. þingmanni með það að fólk bíður eftir álverinu. Það var ánægjulegt að vera nýlega á fundi á Akureyri þar sem fjallað var um mögulegt álver á Norðurlandi. Það var mikill léttir í raun að koma norður og finna þann mikla þrýsting sem þar var á það að fá álver eftir að hafa verið þrjá daga í þinginu og hlustað á vinstri græna. Ég upplifði Ísland eiginlega á alveg nýjan hátt og hef verið í góðu skapi síðan.