132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þó ekki væri nema til þess að valda ekki hæstv. iðnaðarráðherra vonbrigðum með því að eyða ekki nokkrum orðum á hana langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í Byggðastofnun.

Það var mikið átak og pólitísk ákvörðun á sínum tíma að flytja Byggðastofnun til Sauðárkróks og byggja hana upp þar. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun og góð þó að hún hafi verið umdeild. En nú síðustu árin hafa allar aðgerðir miðast að því að draga úr styrk og hlutverki Byggðastofnunar á Sauðárkróki, færa hluta af verkefnum hennar til Akureyrar eða Ísafjarðar, eins og hæstv. ráðherra hefur hér minnst á. Nú segir ráðherra að það þurfi einungis að verja störf Byggðastofnunar á Sauðárkróki, ekki að verja hlutverk hennar eða miðlægt hlutverk.

Ég spyr hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Er þetta rétt stefna sem þarna kemur fram gagnvart uppbyggingu Byggðastofnunar?