132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:50]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sú þingsályktunartillaga og sú skýrsla sem hér eru til umræðu, annars vegar skýrslan um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005 og hins vegar tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009, eru nokkuð miklar að vöxtum, talsvert mikill pappír á ferðinni. En eins og fram kom í umræðu hér í þessum sal fyrr í dag er innihaldið kannski ekki eins mikið að vöxtum og pappírinn gefur tilefni til að ætla því að skýrslan um framvindu byggðaáætlunar er nánast sú sama og flutt hefur verið ár eftir ár í þinginu.

Á það var bent af hæstv. ráðherra að það væru að vísu sjö nýjar línur í skýrslunni sem væru mjög jákvæðar vegna þess að í þeim línum kæmi fram að nokkur viðsnúningur hefði orðið á árunum 2000–2005. Á þeim tíma hefði íbúum landsbyggðarinnar ekki fækkað eins og hafði gerst árin á undan — á árunum á undan, 1996–2000, hefði íbúum fækkað í öllum gömlu kjördæmunum utan höfuðborgarsvæðisins en á tímabilinu 2000–2004 hefði þróunin breyst þannig að nú hefði einungis orðið fækkun í tveimur gömlu kjördæmanna, þ.e. á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Þetta er rétt eins langt og það nær, virðulegur forseti, en hins vegar segir þetta ekki alla söguna vegna þess að landsbyggð og landsbyggð eru sitt hvað. Þegar rýnt er í svar sem félagsmálaráðherra gaf nýverið við fyrirspurn frá Kristjáni L. Möller, þingmanni Samfylkingarinnar, um íbúatölur kemur fram að mjög mörg byggðarlög í landinu eiga verulega undir högg að sækja og þar hefur orðið umtalsverð íbúafækkun á árunum 2000–2004, jafnvel þó að fjölgun hafi orðið í viðkomandi kjördæmi.

Við þurfum ekki annað en að horfa á Suðurkjördæmið, heilmikill vöxtur hefur verið hér í kringum höfuðborgarsvæðið, í Hveragerði og Árborg og víðar. En önnur sveitarfélög á þessu svæði hafa þurft að láta undan síga, eins og Vestmannaeyjabær þar sem íbúum hefur fækkað um 6,3% á þessu tímabili og á Hornafirði hefur íbúum líka fækkað um 6,3%. Jafnvel í Reykjanesbæ hefur fjölgunin verið minni en í kjördæminu í heild sinni, aðeins 3,7% fjölgun hefur orðið í Reykjanesbæ sem er þá bæjarfélag sem á líka undir högg að sækja og það tengist auðvitað atvinnumálunum þar.

Síðan getum við horft á önnur kjördæmi og þá blasir við okkur t.d. varðandi Norðvesturkjördæmi mikil og viðvarandi fækkun á sunnanverðum Vestfjörðum. Jafnvel í sveitarfélaginu Skagafirði er fækkun upp á 1,2%. Í Húnavatnssýslum, nánast eins og þær leggja sig, er fækkun í nánast öllum byggðarlögum. Við förum yfir á Norðausturland og þar er sömu sögu að segja, fækkun í Siglufjarðarkaupstað, í Húsavíkurbæ, í Ólafsfjarðarbæ, í Dalvíkurbæ, í Grýtubakkahreppi, í Skútustaðahreppi o.s.frv., í Raufarhafnarhreppi og í Svalbarðshreppi. Í Fjarðabyggð er fjölgunin 22% og það lyftir kjördæminu upp. Svo þarf víst ekki að fara langt frá Fjarðabyggð í Fáskrúðsfjarðarhrepp, Breiðdalshrepp og Djúpavogshrepp til þess að sjá tölur um fækkun um 14 og upp í 23% á þessu tímabili. Það segir því ekki alla söguna þegar meðaltalið er tekið og það segir eiginlega ósköp lítið um það sem er að gerast í íbúaþróun.

Í sjálfu sér getur sú þróun sem þarna á sér stað talist eðlileg. Það er alþjóðlegt fyrirbæri, og er lögmál efnahagslífsins ef svo má segja, að fyrirtæki þjappa sér saman og fólkið fer svo þangað sem tækifærin eru flest. Þetta er að gerast um allan heim en þetta er líka staðbundin þróun. Hún á sér staðbundnar rætur og hún á sér rætur í stjórnvaldsaðgerðum. Það er auðvitað ýmislegt sem hefur verið gert hér á umliðnum árum af hálfu stjórnvalda sem hefur haft þessi áhrif.

Það má t.d. nefna breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja sem hafa verið gerðar á umliðnum árum. Ég hygg að þær breytingar hafi að mörgu leyti komið illa niður á landsbyggðinni þó að það hafi kannski ekki verið meining stjórnvalda. Að mörgu leyti voru þessar aðgerðir eðlilegar út frá gangverki efnahagslífsins og jafnræði atvinnugreina og atvinnufyrirtækja o.s.frv. Það var þannig hér á árum áður að ýmsar atvinnugreinar greiddu lægra tryggingagjald en aðrar og ég hygg að það hafi að stórum hluta til verið atvinnugreinar sem stóðu nokkuð föstum fótum úti um land. Síðan var þessu breytt og tryggingagjaldið var jafnað hjá öllum atvinnugreinum. Annað sem gerðist líka í skattaumhverfi fyrirtækja var að tekjuskattur á fyrirtækjum var lækkaður, sem hefur orðið til þess að fyrirtækin eru farin að skila meira arði þannig að sú aðgerð hefur í sjálfu sér skilað tekjum í ríkissjóð. En samhliða þessu var tryggingagjald á fyrirtækjum hækkað og það kom miklu meira við fyrirtæki úti á landi en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnvaldsaðgerðir sem geta, eins og ég segi, átt fyllilega rétt á sér og verið til komnar af eðlilegum ástæðum hafa heilmikil áhrif á það hvernig byggð þróast og hvernig atvinnulíf þrífst um landið. Ýmsar stjórnvaldsaðgerðir í skattamálum hafa komið mjög illa við fyrirtæki úti á landi, ýmsar aðgerðir í stjórn ríkisfjármála og peningamála hafa líka komið mjög illa við fyrirtæki og íbúa úti um landið.

Þetta hefur gerst án þess að ríkisstjórnin hafi gripið til þeirra mótvægisaðgerða sem eðlilegt er að gera þegar um slíkt er að ræða. Það hefur ekki verið gripið til mótvægisaðgerða til þess að stemma stigu við þeirri þróun sem hér hefur orðið og hefur leitt til þessarar fækkunar í mörgum sveitarfélögum úti um landið og hefur leitt til þess að atvinnulíf á erfiðara uppdráttar.

Auðvitað er þetta ekki eina ástæðan, það mætti nefna aukna samþjöppun í sjávarútvegi, það mætti nefna tæknibreytingar, það mætti nefna breytingar í landbúnaði o.s.frv. en allar þessar breytingar kalla á einhverjar mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda. Til slíkra aðgerða hefur ekki verið gripið. Þess vegna hafa hlutir þróast með þeim hætti sem þeir hafa þróast. Það er ekkert náttúrulögmál að leiðir skilji milli þéttbýlissvæðisins hér á suðvesturhorninu og stórs hluta byggðarinnar úti á landi og það er heldur ekkert náttúrulögmál að leiðir skilji milli þeirra sem hafa hæstar tekjur í samfélaginu og hinna sem hafa þær lægstar. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta tengist stjórnvaldsaðgerðum, þær geta bæði ýtt undir slíkt, og það hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar gert, og þær geta líka dregið úr áhrifunum og það hefur vantað nokkuð mikið upp á það af hálfu stjórnvalda.

Ég fór síðastliðið sumar og haust út um allt land og fundaði með samfylkingarfólki og hélt reyndar líka opna fundi í ýmsum sveitarfélögum. Það sem maður finnur mjög fyrir eru áhyggjur fólks og óöryggi vegna stöðu ýmissa byggðarlaga úti á landi. Fólk er óöruggt gagnvart atvinnumöguleikum sínum þegar til framtíðar er litið. Það hefur áhyggjur af þeim mikla tilkostnaði sem því fylgir að mennta börnin sín. Fólk talar um að það kosti 400–450 þús. kr. að senda ungling í framhaldsskóla burt að heiman. Það er umtalsverður kostnaður þegar þess er gætt hversu lítið kemur á móti úr jöfnunarsjóði námskostnaðar sem greiðir að hámarki 150–180 þús. kr. vegna hvers nemanda. Þetta er auðvitað gríðarlegur aðstöðumunur sem þarna er á milli fólks hvað varðar aðgang að menntun fyrir börnin og mjög mikilvægt að þessi aðgangur sé jafnaður.

Eitt sem fólk nefnir líka mjög gjarnan er hinn mikli flutningskostnaður sem fylgir ýmsum svæðum og ýmsum fyrirtækjum sem staðsett eru úti á landi. Fyrir fyrirtæki sem ekki byggja á staðbundnum framleiðsluþáttum, ef svo má segja, t.d. iðnfyrirtæki sem vilja setjast að úti á landi og nýta sér ekki beinlínis einhverja staðbundna þætti, nýta sér bara almennt vinnuafl og hráefni sem þeir gætu í sjálfu sér fengið hvar sem er á landinu, fyrir slík fyrirtæki er auðvitað sá mikli flutningskostnaður sem fylgir því að staðsetja sig víða úti á landi mikil hindrun. Það hefur verið gripið til aðgerða, t.d. í Noregi þar sem flutningskostnaður hefur verið niðurgreiddur. Þar hefur verið endurgreiddur flutningskostnaður hjá fyrirtækjum sem ekki byggja á staðbundnum framleiðsluþáttum til að jafna, ef svo má segja, þann aðstöðumun sem er vegna fjarlægðarinnar. Þetta hafa Norðmenn gert með góðum árangri og þetta var eitt af því sem talið var að ráðherra ætlaði að grípa til, en eins og kom fram í umræðunni áðan hefur það ekki verið gert.

Eitt enn var nefnt og er auðvitað gríðarlega mikilvægt og það eru samgöngumálin. Þar þarf víða að taka til hendinni. Eins og kom fram í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur er auðvitað tómt mál að tala um svæðismiðstöðvar eins og Ísafjörð á meðan fólkið sem býr á suðurfjörðum Vestfjarða á í rauninni mjög ógreiða leið að þeim byggðarkjarna sem Ísafjörður á að vera og er mikilvægt að þar sé tekið til hendinni.

Varðandi byggðamálin að öðru leyti sýnist mér að upp sé komið nýtt tískuorð í byggðaumræðunni, lausnarorð, og það er orðið vaxtarsamningur. Það á að gera vaxtarsamninga alls staðar. Ég tel að vaxtarsamningar eigi víða rétt á sér. Þeir eiga rétt á sér þar sem fyrirsjáanlegt er að vöxtur getur orðið, ef stöndug, öflug fyrirtæki eru á viðkomandi svæðum, fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja eitthvað af mörkum til slíkra vaxtarsamninga. En annars staðar held ég að slíkir samningar hafi ekkert upp á sig og séu bara dálítið mikil pótemkintjöld. Við verðum að horfast í augu við að það eru ákveðin svæði sem við verðum að skilgreina, ekki sem vaxtarsvæði, heldur sem varnarsvæði. Kannski ættum við að gera einhvers konar varnarsamninga varðandi þau svæði, þ.e. að horfast í augu við veruleikann að fólki mun fækka þar og reyna með stjórnvaldsaðgerðum að búa þeim sem eftir verða ákveðin lífsgæði engu að síður, og þar þurfi opinberir aðilar að koma miklu öflugar inn í það en þeir gera í hinum svokölluðu vaxtarsamningum. Vaxtarsamningar eru ágætir til síns brúks og þar sem þeir eiga við, þar sem eru öflug fyrirtæki sem geta lagt eitthvað af mörkum, þar sem er eitthvert rannsóknarumhverfi. Annars staðar þarf að grípa til annars konar aðgerða sem byggja á svæðisbundnum úttektum og áætlunum.

Virðulegi forseti. Það sem ég sakna — tíminn hleypur nú alveg óskaplega frá manni í þessari umræðu sem hægt væri að hafa uppi lengi — en það sem ég sakna í þessari áætlanagerð ráðherrans er að hún sé aðgerðabundin, þ.e. að skilgreint sé nákvæmlega til hvaða aðgerða á að grípa og hvernig menn ætli að mæla það hvort þeir eru að ná þeim markmiðum sem þeir setja sér eða ekki. Það eru engin mælanleg markmið í áætluninni, það er engin aðgerðabinding. Þetta eru orð á blaði, ágæt til síns brúks. En ég býst við, virðulegi forseti, að á næsta ári komi enn ein skýrslan um byggðaáætlun, úttekt á því sem gert hefur verið, og að hún verði nánast eins og sú skýrsla sem hér liggur fyrir sem er eins og skýrslurnar tvær á undan, vegna þess að það vantar inn í þetta miklu skýrari aðgerðir og að sett séu mælanleg markmið.