132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:38]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að vekja athygli á þessum þætti. Það er augljóst að það eru mjög margir sem líta orðið á bættar samgöngur sem verulegan þátt í viðskiptastarfsemi sinni, þ.e. mörg fyrirtæki sem hafa áhuga á slíku. Ég held að það að fara í einkaframkvæmd á mikilvægum vegum sem augljóslega munu skila arði sé bara hið besta mál.

Það má vel vera og ég held að þegar hv. iðnaðarnefnd er búin að fara yfir þennan texta þá ætti hún að íhuga hvort ástæða sé til þess að benda sérstaklega á þetta og geta þess í nefndarálitinu. Þarna er auðvitað um að ræða mál sem mun hafa mjög mikil áhrif á byggðaþróun, að bæta samgöngur á milli landshluta. Ég lít til þess sem mjög góðs verkefnis að tengja Suður- og Norðurland og það er mikil ástæða til þess að ætla að samskipti milli landshluta geti batnað með betri og öruggari samgöngum. Þetta mun skipta mjög miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og atvinnulífið enda eru þau fyrirtæki sem ætla að koma að þessu verkefni framleiðslufyrirtæki og verslunarfyrirtæki sem auðvitað sjá mikinn hag af uppbyggingu vegar yfir Kjöl.