132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar mitt og spurning til hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur er varðandi þá skýrslu um framkvæmd byggðaáætlunar sem var svolítið gerð að umtalsefni í upphafi fundar en ekkert síðan. Það var athyglisvert að hæstv. ráðherra minntist ekki á skýrsluna.

Spurning mín til hv. þingmanns lýtur að 6. kafla í síðustu áætlun sem var um athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna og þá sérstaklega það sem sett er fram í skýrslunni um að unnið hafi verið að úttekt á flutningskostnaði á vegum iðnaðarráðuneytis og svo í sambandi við samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneytið o.fl. Eins og hv. þingmaður greindi frá þá ræða sveitarstjórnarmenn og aðrir við okkur þingmenn um fjarskipti og flutningskostnað og ýmislegt svoleiðis. Flutningskostnaðurinn er mjög íþyngjandi fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni og skekkir mjög samkeppnishæfni þeirra.

Það kemur fram í þessari skýrslu og í lokin er sagt, með leyfi forseta:

„Ekki náðist samstaða um framgang þess milli ráðuneytanna þriggja.“

Hæstv. ráðherra byggðamála sagði á fundi Eyþings 16. janúar sl. þar sem ég og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sátum og vorum að ræða þetta mál eftir að Eyþing opnaði á það, að málið væri einfaldlega dautt vegna þess að ekki hefði náðst samstaða um það milli stjórnarflokkanna.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Hvers vegna viljið þið sjálfstæðismenn ekki fara í að lagfæra þennan þátt sem íþyngir svo mjög atvinnurekstri á landsbyggðinni og er mjög mikill landsbyggðarskattur?