132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 og eins skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005.

Ýmislegt má um bæði skýrsluna og tillöguna segja því að skýrslan lýsir framvindu byggðaáætlunar eins og hún kemur fram á undanförnum fjórum árum og byggir á þeirri byggðaáætlun sem þá var lögð fram, sem er í megindráttum svipuð þeirri stefnumótandi byggðaáætlun sem við erum að fjalla um núna, með þeirri undantekningu þó helst að nú er verið að leggja meiri áherslu á byggðarkjarna en var í fyrri byggðaáætlun.

Segja má um hvernig til hefur tekist í síðustu byggðaáætlun og um það sem sett er fram í stefnumótandi byggðaáætlun 2006–2009 að í báðum tilfellum vantar mælanleika þannig að hægt sé að meta hvernig til hefur tekist. Hæstv. forseti, ég vil beina því til hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra að skoða þingsályktunartillöguna og stefnumótandi byggðaáætlun sérstaklega með tilliti til þess að í hana verði sett mælanleg markmið. Mælanlegt markmið gæti verið t.d. íbúaþróun, markmið gætu verið sett fram varðandi mismunandi svæði og kjördæmi, landshluta, allt eftir því hvernig það yrði sett fram. Einnig er hægt að setja sem mælanleg markmið nýframkvæmdir í vegagerð, brúargerð eða í samgöngumálum. Önnur slík markmið er mjög auðvelt að setja, t.d. varðandi nema sem stunda nám í framhaldsskóla, á háskólastigi o.s.frv. Því lítið mark er takandi á svona áætlunum nema við náum að setja inn mælanleg markmið og fara yfir það hvers vegna þau markmið náðust ekki.

Varðandi skýrsluna og hvernig til hefur tekist á umliðnum fjórum árum telja ríkisstjórnarþingmennirnir sem hér hafa talað og ríkisstjórnin að vel hafi verið staðið að málum. Hér sé verið að styrkja byggð í landinu, verið sé að efla hagsæld og ríkisstjórnin standi fyrir stöðugleika og uppbyggingu sem er allri þjóðinni mjög hugnanleg og til styrkingar byggð.

En það er bara ekki þannig og það kemur fram í skýrslunni þegar leitað er til svæðanna, sem sé landshlutanna, þá hefur t.d. alls staðar, fyrir utan Reykjavík og höfuðborgarsvæðið, orðið íbúafækkun, mismunandi eftir stöðum en á mörgum stöðum er hún mjög alvarleg. Ekki er hægt að segja að vel hafi tekist til ef íbúum heldur áfram að fækka. Ekki er heldur hægt að segja að vel hafi tekist til ef atvinnuöryggi er ekki til staðar og tekjur fólks lækkað og ef aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem hún stendur fyrir, veikja möguleika fólks á að búa áfram á þeim stöðum sem það hefur búið eða kýs að búa á, fyrir utan suðvesturhornið. Það er því ekki hægt að segja að skýrslan gefi glansmynd af þeim fjórum árum sem liðin eru.

Þó má benda á nokkur atriði sem eru jákvæð eins og vaxtarsamningana sem eru jákvæðir og ýmislegt sem snýr að þeim. En þegar við lítum svo til þeirra aðgerða sem lagt var til að farið yrði út í á undanförnum fjórum árum höfum við á hinu háa Alþingi og stjórnarandstaðan bent á við hverja einustu fjárlagagerð að til þess að hægt sé að standa við þá byggðaáætlun sem legið hefur fyrir og ef á að vera eitthvert mark takandi á henni þá vantar fjármagn inn í þessa málaflokka. Undanfarin ár, þau ár sem byggðaáætlunin hefur náð til, hafa margir mikilvægir málaflokkar verið sveltir og ekki verið hægt að standa að uppbyggingu með þeim hætti að byggðaáætlun eða heilbrigð skynsemi hafi verið höfð til hliðsjónar.

Hvað varðar tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2006–2009 finnst mér ljóst að byggðamálin eigi að heyra undir forsætisráðuneytið. Byggðamálin eru ekkert einn málaflokkur. Byggðamál eru sú þróun sem við viljum sjá og hafa áhrif á, sú þróun hvernig byggð eigi að þróast, hvernig lífið í landinu eigi að vera. Það heyrir ekki undir einn ráðherra, iðnaðar eða viðskipta, byggðamálaráðherra, það heyrir undir þann ráðherra sem veitir forustu í ríkisstjórn hverju sinni og það er forsætisráðherra. Ég tel að ástæða sé til að endurskoða það í stjórnsýslunni undir hvaða ráðherra byggðamálin falla.

Sú mikilvæga stofnun sem hefur verið undir byggðamálaráðherra fram til þessa, Byggðastofnun, hefur verið að veikjast og er í nokkurri upplausn eins og er og það er miður. Atvinnuþróunarfélögin hafa ekki fengið þann styrk sem þau hafa þurft til þess að stuðla að eðlilegri byggðaþróun og nýsköpun á svæðum sínum og þau þarf að styrkja. En til þess þarf fjármagn og mannafla og það skilar sér inn í viðkomandi samfélag ef atvinnuþróunarfélögin eru styrkt. Það þýðir ekkert að tala um það að hafa Byggðastofnun eða einhverja stofnun sem á að sinna rannsóknum, lánveitingum eða byggðaþróun sem einhverja eina miðlæga stofnun. Hún verður að vera öflug eða stofnanir undir henni verða að vera öflugar úti um allt land. Nálægðin skiptir líka máli fyrir utan fagleg vinnubrögð og fjármagn sem verður að fylgja með.

Hæstv. forseti. Ég sakna sárlega eins atriðis í þingsályktunartillögunni um stefnumótandi byggðaáætlun. Þegar ég hlustaði á hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra lesa upp þær helstu aðgerðir sem grípa verður til í því skyni að ná markmiðum áætlunarinnar fannst mér lengi vel eins og hún væri að lesa upp úr atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setur hérna fram: Bættar samgöngur, efling sveitarstjórnarstigsins, bætt fjarskipti, gerð og framkvæmd vaxtarsamninga, söfnun og úrvinnsla tölfræðilegra gagna, undirbúningur og gerð landshlutaáætlana, athugun á stöðu byggðarlaga, þetta er nú löng upptalning. Efling menningarstarfsemi, efling símenntunar, bætt heilbrigðisþjónusta, efling þjónustu við innflytjendur og aukin fjölmenning, greining sóknarfæra hefðbundinna atvinnugreina, efling opinberrar þjónustu, uppbygging ferðaþjónustu, stuðningur við atvinnurekstur kvenna, styrking skapandi greina, efling umhverfisstarfs í sveitarfélögunum og svo þessi samvinna við Norðurlönd og norrænu Atlantshafsnefndina.

Þetta eru allt saman mál sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið að leggja áherslu á hér í þinginu. En eitt er að setja fram áætlun og hitt er að fara eftir henni. Það sem ég sakna sárlega í þessari upptalningu, því að þetta er þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar, er stóriðjan. Hvar er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar ef þetta á að vera trúverðugt plagg? Ég sakna þess að ríkisstjórnin skuli þá ekki setja fram tillögur í stóriðjustefnunni, að halda eigi hér áfram að byggja upp stóriðju og álver um land allt eins og boðað er til. (Gripið fram í.) Þetta er ekki stóriðjustefna, þetta er stefnumótandi byggðaáætlun. En hvaða áhrif hefur langstærsta byggðaaðgerð allra tíma haft á aðrar atvinnugreinar?

Það á að koma hreint til dyranna. Ef halda á áfram þeirri stóriðjustefnu sem nú er ríkjandi hjá núverandi ríkisstjórn á hún að koma hér fram svo menn geti áttað sig á því að þetta er bara skrautplagg vegna þess að (Iðnrh.: Það er engin stóriðjustefna.) ef stóriðjustefnan kemur ekki fram, að það eigi að halda áfram að reisa álver og halda áfram í stóriðju og halda áfram þeim miklu framkvæmdum næsta tímabil byggðaáætlunarinnar 2006–2009, og undirbúa og fara í frekari aðgerðir í álversframkvæmdum og halda áfram þeirri stóriðjustefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir, þá er þetta bara marklaust plagg. Vegna þess að sú áætlun í þeim búningi sem hæstv. iðnaðarráðherra — ekki sem byggðamálaráðherra heldur sem iðnaðarráðherra — talar hér fyrir, bæði á þingi og í samfélaginu um að halda eigi stóriðjustefnunni áfram, mun riðla þessari þingsályktunartillögu um byggðaáætlun. Þá stendur ekki steinn yfir steini. Það verður þá áfram aðhald í ríkisfjármálum vegna þenslu í efnahagskerfinu, ekki verður hægt að efla háskólana, ekki verður hægt að efla heilbrigðiskerfið, ekki verður hægt að fara í uppbyggingu í samgöngumálum því að áfram þarf að vera aðhald í ríkisfjármálum. Það verður ekki hægt að efla ferðaþjónustuna innan frá og hún mun líða áfram fyrir sterkt gengi krónunnar. Hvað þýðir þá að vera að tala um að efla ferðaþjónustuna, hvað þýðir að tala um að efla nýsköpun og atvinnugreinar ef ekki er síðan fjármagn til að setja í það?

Í gær var haldið í Reykjavík nokkuð merkilegt þing sem búið er að vitna til og þar voru framsöguerindi og ræður. Þar hélt tölu Ágúst Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bakkavarar. Hann gagnrýndi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og hann tók undir áhyggjur þeirra fjölmörgu atvinnurekenda sem eru núna að berjast í bökkum vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar. Ef stóriðjustefnan á að vera áfram ríkjandi og staða íslensku krónunnar áfram svona sterk og áframhaldandi þensla á markaðnum sem hefur verið, þá er byggðaáætlun bara smá skrautfjöður, vegna þess ekki er hægt að gera hvort tveggja, að byggja upp sjálfbæra atvinnustefnu, eins og hér á að gera, fjölbreytileika og að styrkja landsbyggðina ef halda á áfram þeirri stóriðjustefnu sem nú hefur ríkt. Ruðningsáhrif stóriðjunnar munu hafa áhrif á aðrar atvinnugreinar. Þau gera það í dag og munu gera það áfram.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég óska eftir því að hæstv. byggðamálaráðherra upplýsi (Forseti hringir.) hvernig íbúafjölgun á Austurlandi er til komin, hvort þetta eru (Forseti hringir.) Íslendingar eða aðrir sem hafa þar bæst í hópinn.