132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurkjördæmis gerir fíkniefnamál að umtalsefni og beinir til mín einni spurningu í sex fjölbreyttum liðum sem ég mun leitast við að svara hér.

Spurt er um forvarnastarf í grunn- og framhaldsskólum með tilliti til samráðsvettvangs skóla, foreldra og þeirra sem vinna að forvarnamálum í félags-, heilbrigðis-, dóms- og menntamálaráðuneytum.

Samstarfsvettvangur forvarnafólks er fyrst og fremst í Saman-hópnum og Náum áttum-hópnum. Þar sitja fulltrúar lögreglunnar í Reykjavík og embættis ríkislögreglustjóra, fulltrúar Lýðheilsustöðvar, fulltrúi frá Barnaverndarstofu og fulltrúar frá sjálfstætt starfandi meðferðaraðilum. Samstarfið á þessum vettvangi er víðtækt, en 22 félagasamtök eða stofnanir eru aðilar að hópnum. Rauði þráðurinn í starfi Saman-hópsins er að hvetja og styðja foreldra, m.a. með útgáfu fræðsluefnis, auglýsinga og greinaskrifa. Hverfislögregla á náið samstarf við fulltrúa Félagsþjónustunnar og ÍTR fyrir utan samstarf við viðkomandi hverfaskóla í Reykjavík. Svipað fyrirkomulag er í öðrum sveitarfélögum, m.a. á vettvangi verkefnisins Vertu til sem er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Við úthlutun styrkja úr Forvarnasjóði er horft til þess að um samstarfsverkefni sé að ræða. Þess utan halda BUGL, Landspítalinn, Barnaverndarstofa og SÁÁ reglulega samráðsfundi og hefur fulltrúum lögreglu verið boðið á nokkra fundi til samráðs.

Öflugt starf forvarnafulltrúa Forvarna í skólum er staðreynd, er það styrkt af menntamálaráðuneytinu og umsjón er í höndum Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum. Þessir aðilar hittast á samráðsfundi tvisvar á ári en hafa auk þess heimasíðu til upplýsingamiðlunar og samráðs.

Lýðheilsustöð vinnur að stefnumótun í skólafræðslu þeirra málaflokka sem heyra undir hana. Auk þess er það áform Lýðheilsustöðvar að auka enn frekar samstarf við lögreglu, forvarna- og meðferðaraðila. Lýðheilsustöð lætur reglulega kanna fyrir sig neyslu vímuefna í grunn- og framhaldsskólum. Niðurstöður þessara kannana eiga að vera öllum aðgengilegar og of langt er að rekja niðurstöður þeirra hér ítarlega í þeim tímaramma sem þessari umræðu er gefinn.

Þó vil ég draga það fram hér að Rannsókn og greining hefur gert árlega kannanir í 9. og 10. bekk í grunnskólum landsins. Fjórða hvert ár, síðast 2003, kemur út ESPAD-skýrsla um vímuefnaneyslu grunnskólanema. ESPAD er evrópskt verkefni með þátttöku 35 landa og hafa áður komið út skýrslur árið 1995 og 1999. Í þessum skýrslum er skoðuð vímuefnaneysla nemenda á 16. ári, þ.e. í 10. bekk. Þar kemur fram að íslenskir unglingar standa sig vel hvað varðar neyslu vímuefna og eru undir meðaltali í samanburði við önnur þátttökulönd.

Af því að sérstaklega er spurt um hve víðtæk fíkniefnaneysla er í grunn- og framhaldsskólum og spurt um árangur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum finnst mér rétt að draga fram niðurstöður þróunar vímuefnaneyslu unglinga í 10. bekk sem Rannsókn og greining tók saman árið 2004. Þar kemur í ljós að 10% 10.-bekkinga höfðu prófað hass 1995, 17% 1998 en árið 2004 höfðu 9% 10.-bekkinga prófað hass. Var sú tala óbreytt árið 2005. Þetta þykja mér ánægjulegar niðurstöður og vil sérstaklega hrósa ungmennum þessa lands. Ég vil meina að þetta sé fyrst og fremst árangur þeirra og vonandi hafa þær aðferðir sem stjórnvöld hafa beitt skilað einhverju.

Spurt er um uppbyggingu áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana á grundvelli skýrslu sem skilað var undir lok síðasta þings, í mars 2005.

Niðurstaða þeirrar yfirgripsmiklu skýrslu er höfð til hliðsjónar í starfi ráðuneytisins. Leitast er við að koma áherslum ráðuneytisins fram í þjónustusamningi við aðila, göngudeildarúrræðum, og kostir þess að fjölga þeim hafa verið kannaðir. Vonandi getum við rætt þessa merkilegu skýrslu á Alþingi fyrir vorið, enda margt merkilegra upplýsinga sem þar kemur fram um ástand mála.

Að endingu spyr hv. 1. þm. Suðurkjördæmis um viðhorf ráðherra til þagnarskyldu heilbrigðisstétta þegar um er að ræða smygl á eiturlyfjum sem borin eru innvortis til landsins.

Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Við þær aðstæður á að víkja þagnarskylduákvæðum til hliðar. Við getum ekki búið við kerfi þar sem glæpamenn renna úr greipum réttvísinnar í skjóli þagnarskyldu sem hugsuð er í allt öðrum tilgangi en að hylma yfir með þeim sem brjóta lög. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef nokkrar áhyggjur af ýmsu því sem sagt hefur verið í þessu sambandi. Þess vegna segi ég að mér hefur fundist menn eiga erfitt með að fóta sig á siðferðissvellinu og gera sér grein fyrir að þagnarskylda heilbrigðisstétta er langt frá því að vera altæk. Frá henni eru undantekningar og í læknalögum og lögum um samráð, svo að dæmi séu tekin, er beinlínis gert ráð fyrir að læknir rjúfi þagnarskylduna. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Afstaða mín er sú að lagaákvæðin sem þagnarskylda lækna byggist á séu skýr og að læknum (Forseti hringir.) beri í þessu tilviki að tilkynna lögreglu um lögbrot þeirra sem til þeirra leita. (Forseti hringir.) Þurfi að áliti lögspekinga að gera lagaákvæði skýrari til að tryggja þetta verður það gert.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hæstv. ráðherra að virða ræðutíma.)