132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:55]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að vekja máls á þessum vanda.

Eiturlyfjaneyslan er þjóðarvá. Það er krabbamein sem étur innan mannlífið. Neyslunni fylgir ofbeldi af áður óþekktri grimmd; siðleysi, rótleysi, upplausn fjölskyldna og skelfileg staða barna. Börn fíkla geta ekki treyst foreldrum sínum og eru gjörsamlega varnarlaus.

Miklar forvarnir virðast ekki hafa nægileg áhrif. Það er í reynd undarlegt, miðað við núverandi þekkingu, að einhver skuli byrja að neyta eiturlyfja. En auðvitað beita sölumenn dauðans, sem reknir eru áfram af hagnaðarvon en líka fíkninni því þeir eru oftast fíklar sjálfir, rangfærslum og ósannindum í markaðssetningunni. Þannig getur sjúkdómurinn af sér sífellt nýja sjúklinga eins og krabbamein í líkama manns nema krabbameinið er takmarkað við líkamann en þetta krabbamein fer um allt þjóðfélagið og fer ekki í manngreinarálit.

Læknar lenda í miklum vanda varðandi þagnarskyldu sína. Auðvitað þurfa þeir að finna lausn á því þannig að þeir með þögn sinni og aðgerðaleysi stuðli ekki að markaðssetningu eiturlyfja sem leitt geti til nýrra fórnarlamba og jafnvel dauða þeirra. Þar hlýtur þagnarskyldan að víkja.

Eins og hér hefur verið minnst á birtist grein í Morgunblaðinu á föstudaginn eftir Hallgrím Óskarsson þar sem hann segir að hefðbundnar forvarnir gegn fíkniefnum geti haft þveröfug áhrif. Við verðum að leita að og skoða allar leiðir til að berjast gegn þessum vágesti, hefðbundar leiðir sem og óhefðbundnar, líka leiðir sem ekki má tala um.