132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu.

[13:57]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör sem hann gaf hér við þó ekki öllum spurningunum því að enn á eftir að svara því hvort búið sé að ganga frá samningi vegna rekstrar sjúkradeildar SÁÁ á Vogi sem hefur lengi beðið eftir að fá þjónustusamning. Einnig þarf að svara því sem haldið er fram í ársskýrslu að ráðuneytið hafi ekki viljað viðurkenna þær breytingar sem hafa orðið á starfseminni þar, hvorki varðandi bráðamóttökuna, dýr lyf sem þangað koma né unglingadeildina og að ævinlega sé miðað við árið 1999 en síðan þá hafi orðið verulegar breytingar á þeirri þörf sem við blasir vegna aukinnar eiturlyfjaneyslu.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði að ég hefði skilið hæstv. ráðherra eftir með fangið fullt af spurningum sem ætti við þrjú, fjögur eða fimm ráðuneyti. Það er vissulega rétt að sumt af þessu skarast en ekki ein einasta spurning sem hér var lögð fram snýr ekki beint að hæstv. ráðherra. Lýðheilsustöð heyrir undir ráðherrann, forvarnirnar heyra undir hann, meðferðarstarfið heyrir undir hann, hæstv. ráðherra á hlut að samstarfi ráðuneyta.

Í markmiðinu sem ríkisstjórnin setti sér 23. maí 2003 segir að markvisst verði unnið í baráttunni gegn fíkniefnavandanum, mótuð verði heildstæð forvarnastefna í samvinnu við lögreglu, skólayfirvöld, íþróttafélög og foreldra, hafnað sé hvers kyns eftirgjöf gagnvart fíkniefnum, innflutningi þeirra, dreifingu og notkun, meðferðarúrræðum verði fjölgað og rík áhersla lögð á forvarnir. Allar þær tölur sem ég var með í fyrri ræðu minni sýna að þróunin er á annan veg og þá erum við ekki á réttri leið, þá þarf að staldra við, þá þarf að kalla til samráðs og finna þær leiðir sem duga til. Það sér hver maður. Það þjónar engum tilgangi, virðulegi forseti, að standa hér og segja að þetta sé allt saman mjög gott, og verja stöðuna eins og hún er (Forseti hringir.) því að hún er slæm.