132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:17]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var afskaplega gaman að heyra í hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Hann er alltaf hressilegur í tali, ekki síst þegar hann talar um sjávarútvegsmál. Hann kom að vanda Byggðastofnunar og ég ætla bara að gleðja hann með því að Byggðastofnun hefur síðustu vikurnar lánað til ýmissa verkefna í atvinnumálum á landsbyggðinni. Núna eru auknar umsóknir til Byggðastofnunar en ég tek undir með honum, það þarf að taka á vanda Byggðastofnunar og ég trúi því og treysti að hæstv. iðnaðarráðherra sé að gera það um þessar mundir. Byggðastofnun hefur ekki haft fjármuni til styrkveitinga en í þeirri skýrslu sem liggur hér fyrir er getið um mörg mjög góð verkefni sem Byggðastofnun var falið að leggja hlutafé í. Eru það allháar upphæðir og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það.

Það er oft talað eins og Byggðastofnun sé handónýt stofnun. Það er af og frá, þar er verið að vinna afskaplega gott starf og þar er fólk virkilega allt af vilja gert að vinna að góðum málum.

Hvað varðar framkvæmdir í samgöngumálum hefur aldrei verið gert annað eins í samgöngumálum þessarar þjóðar og síðustu mánuði og ár, aldrei nokkurn tíma. Við sjáum hér jarðgöng, tvöfaldaða vegi, bættar samgöngur á Reykjanesbrautinni, Hellisheiðinni, í Borgarfirðinum, á Snæfellsnesi, um Norðurland, ég tala nú ekki um Almannaskarðsgöngin sem eru ein fallegustu jarðgöng sem ég hef komið í. Svo mætti lengi enn telja.