132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:28]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrra andsvari mínu benti ég hv. þingmanni einfaldlega á að það þýðir ekki alltaf að líta til fortíðar. Menn verða að horfa fram á veginn. (Gripið fram í: Hann er hafinn.) Þess vegna eigum við að fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gefið hér, að verið er að vinna að vaxtarsamningi við Vesturland og við Vestfirði. Það er nýlega búið að opna Háskólasetur Vestfjarða (Gripið fram í: Og Norðurlands vestra.) og líka er verið að vinna að vaxtarsamningi við Norðurland vestra. Við þekkjum það, við hv. þingmaður, að þar sem merkilegar háskóla- og menntastofnanir rísa, líkt og verið er að gera núna á Vestfjörðum, blómgast byggð. (JBjarn: Eins og á Hólum.) Eins og hv. þm. Jón Bjarnason bendir hér réttilega á, eins og á Hólum, enda hafa framlög til þeirrar merku stofnunar stóraukist á umliðnum árum og umsvif Hólaskóla hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á Sveitarfélagið Skagafjörð. (JBjarn: Já, landið allt.) Það er eitt af því fáa sem við hv. þingmaður getum verið sammála um í atvinnumálum, það að byggja Hólaskóla áfram upp enda veit ég að Skagfirðingar eru stoltir af þeirri merkilegu stofnun.

Aðalatriðið er að menn eiga ekki eingöngu að horfa til fortíðar og benda á það neikvæða. Við eigum líka að horfa fram á veginn og huga að þeim sóknarfærum sem m.a. hæstv. iðnaðarráðherra er að framkvæma í störfum sínum fyrir hönd þjóðarinnar.