132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:47]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski einkennileg tilviljun að Siglufjörður skuli vera nefndur hér á nafn en það er ekki vegna þess að sá sem hér stendur sé endilega sérstakur þingmaður Siglfirðinga heldur náttúrlega landsins alls. Reyndar er ég búsettur á Siglufirði og mér er ánægja að upplýsa hv. þingmann um að ríkisstjórnin hefur komið í gegn miklum samgöngubótum sem fram undan eru sem munu tengja byggðir á Ólafsfirði og Siglufirði.

Við hv. þingmaður þekkjum áform um að reisa framhaldsskóla á svæðinu ef við fáum til þess stuðning á Alþingi. Það væri gríðarlega mikilvægt mál að reisa framhaldsskóla á því svæði, enda hníga öll rök til þess að rétt sé að gera slíkt.

Við höfum verið að byggja upp ferðaþjónustuna á Siglufirði og eins og hv. þm. Kristján Möller þekkir hefur meiri hlutinn á Alþingi og Alþingi allt styrkt skíðavæði Siglfirðinga sérstaklega. Síldarminjasafnið hefur fengið ágætisframlög og síðan er verið að ráðast í framkvæmd upp á nokkur hundruð milljónir við Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar sem er nauðsynleg framkvæmd þar sem stofnunin er komin til ára sinna. Nú er unnið að endurbótum á þeirri stofnun. Ég hefði kosið að það hefði gengið hraðar fyrir sig en raun ber vitni en stefnt er að því að bjóða út mikla viðbyggingu við þá stofnun á næstu mánuðum. Það horfir því margt til framfara á þessu svæði við utanverðan Eyjafjörð, í byggðunum Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Hins vegar ber að líta á það að þessi byggðarlög hafa orðið fyrir verulegum áföllum. Ef við tökum Siglufjörð sem dæmi, byggðarlag sem byggði mikið á rækjuiðnaðinum og líka mikið á því að bræða uppsjávarfisk þá hafa þessir atvinnuvegir því miður ekki blómstrað á síðustu árum. Það er erfitt en við reynum náttúrlega að halda áfram að byggja fjörðinn upp og firðina á öðrum sviðum.