132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:53]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Auðvitað er það svo að mannanna verk eru ekki fullkomin. Ef við horfum hins vegar til staðreynda málanna og ég vitna til skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Þegar tölur um íbúaþróun á landinu á tímabilinu 1996–2000 og svo aftur 2000–2004 eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrra tímabilinu fækkaði íbúum landsbyggðar um rúmlega 2.000 en fjölgaði um tæplega 1.500 á síðara tímabilinu.“

Hér er einhver viðsnúningur. Hv. þingmaður veit að það gengur ágætlega til að mynda í byggðakjörnum eins og Akureyri og á Miðausturlandi. En ég vil spyrja hv. þingmann af því að honum er umhugað um atvinnulífið á landsbyggðinni: Af hverju lagði Samfylkingin það til síðastliðið haust að hækka tryggingagjald á fyrirtækin á landsbyggðinni, lagði til í tillögum sínum við fjárlagagerðina hækkun upp á 400 milljónir? Síðan talar hv. þingmaður um veikt atvinnulíf á landsbyggðinni.