132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:56]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur sýnst að hv. þingmaður hafi setið mestalla þessa umræðu hér. Ég veit ekki hvort hann sleppti því að hlusta á ræðu mína áðan þegar ég nefndi það að sérstök áhersla hefði verið lögð á Vestfirði og Norðurland vestra. (Gripið fram í.) Ég taldi upp fjölgun starfa á Norðurlandi vestra, stofnun háskólaseturs á Vestfjörðum og verið er að gera vaxtarsamning fyrir viðkomandi svæði. Ég get alveg fallist á að á undanförnum árum hefur byggðaþróun ekki verið góð á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Það eru staðreyndir en unnið er að því að bæta þar úr. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að nú sé röðin komin að Norðvesturlandi og ég held að ríkisstjórnin hafi á umliðnum mánuðum sýnt það og sannað að staðið verður við þau orð. En ég tek eftir því að hv. þingmaður talar ekki mikið um þá stefnu Samfylkingarinnar að auka álögur á fyrirtækin á landsbyggðinni eins og þeir lögðu til síðastliðið haust upp á 400 millj. kr.