132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:57]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vert er að reyna að hafa málefnalegt andsvar við hv. þingmann. Ég vil koma að því sem hv. þingmaður nefndi að við hv. þm. Kristján L. Möller hefðum riðið um héruð og tilkynnt þar að Samfylkingin stæði með mönnum í stóriðjumálum í Norðausturkjördæmi. Það vekur furðu mína að svo ungur og efnilegur þingmaður eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson skuli ekki lesa samþykktir þingflokka sem hér eru gerðar og sendar út. Þetta er afskaplega einfalt. Fyrir líklega 10 dögum eða svo, hálfum mánuði, var gerð samþykkt í þingflokki Samfylkingarinnar þar sem þetta er afskaplega skýrt, þar kemur fram að Samfylkingin telji að það sé ráðrúm til þess að reisa eitt álver fram til ársins 2012. Ég held að það sé ekkert vandamál að fá ákveðna hluti út úr þeirri ályktun ef menn raða þeim rökstuðningi sem þar er settur fram. Ég á a.m.k. ekki í nokkrum vandræðum með það en það getur vel verið að það sé eitthvað flókið fyrir hv. þingmann, af því að hann sé vanur einhvern veginn öðruvísi ályktunum frá sínum flokki. En þetta er afskaplega skýrt hjá okkur og ekkert vandamál. (Forseti hringir.) Hins vegar tek ég undir það með flestum að auðvitað þarf að fara varlega í þessu efni eins og öllu öðru.