132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:58]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um að ályktun þingflokksins hafi verið mjög skýr. Þó er enginn sérstakur staður nefndur á nafn í viðkomandi ályktun, fólk á bara að lesa út úr þessu eftir því hvort það býr á suðvesturhorninu eða fyrir norðan. „Þetta er mjög skýrt“, sagði hv. þingmaður. Þó er enginn staður nefndur sérstaklega í þessari ályktun en þetta er merki um skýra stefnu Samfylkingarinnar í stóriðjumálum. Ég tók eftir því á dögunum þegar við ræddum þessi mál í þingsölum að hv. þingmenn Kristján Möller og Einar Már Sigurðarson voru ekki talsmenn Samfylkingarinnar í þeirri umræðu, því miður. Því ég þykist vita um góðan hug þeirra til Norðlendinga rétt eins og ég og hæstv. iðnaðarráðherra berum.

Hæstv. forseti. Þar sem stefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálunum er svo skýr sem raun ber vitni, er hún þá jafnskýr í sjávarútvegsmálunum? Því það virðist alveg sama hve oft ég spyr hv. þingmenn Samfylkingarinnar um stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum, ég fæ aldrei nein svör.