132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:59]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi tilraun mín til að reyna að eiga máefnalegar viðræður við hv. þingmann eru greinilega býsna erfiðar. Ég var að ræða um stóriðjumál og hv. þingmaður fer eins og venjulega út í það að spyrja endalausra spurninga en svara ekki nokkrum sköpuðum hlut. (Gripið fram í.)

Málið er ósköp einfaldlega þetta. Ég spurði hvort hv. þingmaður hefði lesið ályktunina og komist að niðurstöðu eða hvort hann hefði skilið hana eða ekki skilið hana. Það er augljóst að hann hefur ekki skilið hana þannig að ég verð að biðja hv. þingmann um að lesa hana aftur. Það er hins vegar afskaplega ljóst í mínum huga hvað þessi ályktun segir. Hún segir að það sé pláss fyrir eitt álver fram að 2012 og síðan er tiltekið hvað það er sem taka eigi tillit til. Það eru atvinnumál, byggðamál og efnahagsmál. (BJJ: Af hverju segirðu …?) Ef við skoðum þetta er augljóst mál hver niðurstaðan verður. Hins vegar hef ég aldrei orðið var við að hæstv. iðnaðarráðherra eða hv. þingmaður hafi einhvern tíma nefnt ákveðinn stað. En það vill svo til að sá þingmaður sem hér stendur í ræðustól hefur nefnt ákveðinn stað, hefur margoft gert það og aldrei nokkurn tíma falið það að sá staður sem honum er efst í huga þegar kemur að álveri, með þeim fyrirvara að fjárfestarnir verða að ákveða það, er auðvitað við Húsavík. Það blasir við þegar við notum (Forseti hringir.) öll þessi rök að það er staðurinn sem næsta álver á að vera og það er nægjanlegt að það sé eitt.