132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í flokksþingsályktunum okkar framsóknarmanna kemur fram að næsta álver skuli reist á Norðurlandi. Það er nokkuð afdráttarlaus yfirlýsing af hálfu þess stjórnmálaflokks. (EMS: Ertu að segja mér að ráðherrann samþykki þetta?) Nú er í gangi fagleg vinna undir forustu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ásamt fulltrúum sveitarstjórna Skagafjarðar, Eyjafjarðar og úr Þingeyjarsýslu. Geta hlutirnir verið eitthvað faglegri en það? (Gripið fram í: Af hverju er þá verið að selja ...) Það koma margir aðilar að þessu, það er verið að meta hagkvæmustu kosti í þessu samhengi (Gripið fram í.) en það er alveg ljóst að þingmenn Samfylkingarinnar leika það í svo mörgum málum að vera með eitthvert sóló, því stefna (Gripið fram í.) flokksins í viðkomandi málaflokkum liggur ekkert fyrir og því hafa menn bara frítt spil og geta síðan talað til hægri og vinstri í þessum efnum. Því miður hefur Samfylkingin enga trúverðuga stefnu í þessum málaflokki, frekar en í sjávarútvegsmálum.