132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:22]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Möller fer mikinn og það er kannski ekki skrýtið þó honum sé dálítið niðri fyrir vegna þess að nú hefur hann verið lítillækkaður það í sínum þingflokki að hann er ekki lengur talsmaður byggðamála. Formaður flokksins hefur tekið það hlutverk af honum. Það er greinilegt að hann er í nokkru uppnámi út af því. Síðan talar hann um að taka málaflokkinn frá iðnaðarráðuneytinu og færa yfir í forsætisráðuneytið. Hvers vegna skyldi það nú vera? Þegar byggðaþróun hefur einmitt stórbreyst til batnaðar síðan málaflokkurinn fór í iðnaðarráðuneytið. Það hef ég farið hér yfir með tölum. Þar hefur orðið mikil breyting á og ég tel að skýringin sé fyrst og fremst sú að vandamál landsbyggðarinnar snúast mjög mikið um atvinnumál. Það eru atvinnumál sem við förum með í iðnaðarráðuneytinu og mjög margt sem við höfum verið að fjalla um þar snýr einmitt að byggðamálum. Ég er sannfærð um að ekki einn einasti maður á landsbyggðinni sem þekkir til minna starfa sem ráðherra byggðamála væri tilbúinn að kvitta undir þá ræðu sem hv. þingmaður hélt hér áðan. Ekki einn einasti.

Það er nefnilega vandamálið með hv. þm. Kristján Möller að hann talar með þeim hætti að hann virðist vera að leggja sig fram um að segja fólki á landsbyggðinni að það hafi það mjög skítt. Það er hans markmið með sínum ræðuflutningi hér á hv. Alþingi. Ég hef skömm á svona málflutningi og ég minni á að hv. þingmaður — sem sagði að í síðustu byggðaáætlun, sem nú hefur runnið sitt skeið, hefðu verið góð markmið — hafði ekki kjark til að styðja þá byggðaáætlun. Þannig að hann styður ekki þá byggðaáætlun sem nú hefur verið í framkvæmd á síðustu fjórum árum og hefur leitt til þess að fólki hefur verið að fjölga á landsbyggðinni í stað þess að því fækkaði á tímabilinu þar á undan. Ég vil bara endurtaka að við höfum náð gríðarlegum árangri en auðvitað eru alltaf verkefni fram undan. (Forseti hringir.)