132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kom staðfesting á því sem ég kallaði reyndar eftir áðan. Ég þakka hv. 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal, kærlega fyrir að nefna flutningskostnaðinn. Það er alltaf gaman að ræða við sjálfstæðismenn um flutningskostnað.

Fram hefur komið og kemur fram í skýrslunni um framkvæmd byggðastefnunnar 2002–2005 í kaflanum sem vitnað hefur verið til, að það hafi ekki náðst samstaða innan ríkisstjórnar um að fara í aðgerðir til að lækka flutningskostnað. Þess vegna að endurgreiða, eins og hæstv. ráðherra hefur talað um, hluta af því og er þá talað um ýmsar atvinnugreinar en þó ekki allar.

Hæstv. ráðherra hefur sagt og skrifað í skýrslunni að þetta hafi verið stoppað. Á fundi 16. janúar sl., sem hv. 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, var því miður ekki á, með fulltrúum Eyþings, kom líka fram að hæstv. ráðherra byggðamála væri hætt að berjast fyrir lagfæringum gagnvart flutningskostnaðinum vegna andstöðu. Hvaðan kemur sú andstaða fram? Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði áðan að hún hefði aldrei séð þær tillögur og þær hafa ekki komið í þingflokka stjórnarliðsins. Það hefur verið í ríkisstjórn. Þá er ekki hægt að draga aðra ályktun, vegna þess að þar sitja bara fulltrúar tveggja flokka, en að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem hafi stoppað þá aðgerð. Það væri gaman að heyra í hv. þm. Halldóri Blöndal hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn því að koma til móts við þessi svimandi háu flutningsgjöld og koma með einhvers konar kerfi til að létta atvinnurekstrinum það.

Þar að auki, virðulegi forseti, lagði hv. þingmaður af strandsiglingar á þeim tíma sem hann var samgönguráðherra og sparaði ríkissjóði þar töluverða peninga. Ég er ekki talsmaður ríkisrekinna strandsiglinga (Forseti hringir.) en þetta íþyngdi atvinnurekstri á landsbyggðinni.