132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[15:35]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði það á Alþingi fyrir síðustu kosningar að þau ummæli sem hv. þingmaður og þáv. formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, létu sér um munn fara, að þeir mundu beita sér fyrir því eftir kosningar að lækka skatta á einstaklinga í Norðausturkjördæmi og þeir mundu beita sér fyrir því að lækka flutningskostnað fyrir íbúa í Norðausturkjördæmi, að þetta væru ummæli sem þeir ætluðu sér aldrei að standa við.

Ég var ekki í andsvari við hv. þingmann um ummæli hæstv. iðnaðarráðherra. Ég þarf ekki á milligöngu hans að halda til að tala við hana. Ég var að spyrja hv. þingmann: Ætlar hv. þingmaður að efna loforð sín? Samfylkingin er ekki í stjórnarsamstarfi við einn eða neinn, Samfylkingin á þetta bara við sjálfa sig. Samfylkingin ræðir það á þingflokksfundum sínum við sjálfa sig hvort hún vill leggja fram frumvarp um þau mál sem Samfylkingin leggur áherslu á. Samfylkingin sýnir þeim málum engan áhuga með frumvarpsflutningi á Alþingi.

Eina leiðin til að breyta skattalögum er að leggja fram frumvarp á Alþingi um breytta skattalöggjöf. Það hefur Samfylkingin ekki gert. Kristján kemur upp og blæs eins og hnúfubakur, ég bið hæstv. forseta afsökunar á þeirri líkingu. Þegar við tölum um endurgreiðslu á flutningskostnaði kemur hv. þingmaður upp alveg eins og fyrir síðustu kosningar — ég verð að segja að þarna er hv. þm. ekki eins og hnúfubakur. Blásturinn hefur heldur minnkað, dregið af honum, og í vandræðum sínum hleypur hann til Valgerðar og er að velta því fyrir sér hvort hann sé betri eða verri en Valgerður. Ég hef engan áhuga á því hvort honum finnst hann vera betri eða verri en hæstv. iðnaðarráðherra. Ég er bara að spyrja hvað hv. þingmaður og leiðtogi Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, vilja gera í sambandi við flutningskostnað, í sambandi við skattamál landsbyggðarinnar.